SA hvetja Seðlabankann til dáða við að afstýra efnahagslægð

Hús atvinnulífsins, sem hýsir m.a. Samtök atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins (SA) hvetja Seðlabankann til að lækka stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi, þann 5. febrúar nk. Þá sé jafnframt mikilvægt að endurskoða áform um hækkun eiginfjárauka bankanna. Frá þessu segir í tilkynningu á vef samtakanna í dag.

Fari fram sem horfir, og engar breytingar verða á stefnu Seðlabankans og skattastefnu stjórnvalda, blasir við enn dýpri efnahagslægð, segir í tilkynningunni.

Ástæðan sé m.a. þau stórtíðindi í nýjustu tölum Seðlabankans um útlán bankakerfisins árið 2019 að hrein útlán til fyrirtækja (útlán að frádregnum uppgreiðslum) minnkuðu um 60% milli áranna 2018 og 2019. Umskiptin skýrist ekki eingöngu af efnahagslægðinni sem gengur yfir því aðgangur að lánsfé hafi þrengst þrátt fyrir 150 punkta stýrivaxtalækkanir Seðlabankans á síðasta ári.

Skattar og ný stjórntæki Seðlabankans lama atvinnulífið

Ný stjórntæki Seðlabankans hafi ráðandi áhrif á útlánagetu bankanna. Eiginfjárkröfur þeirra hafa verið hertar og sérstakur sveiflujöfnunarauki hækkar um 0,25 prósentur í febrúar. Þá greiða bankarnir bankaskatt og aðra sérskatta sem leggjast þungt á rekstur þeirra. Þessir þættir skekkja ekki aðeins samkeppnisstöðu banka á útlánamarkaði heldur skerða einnig  afkomu þeirra. Sökum þessa hefur aðgangur að fjármagni úr bankakerfinu snarversnað eins og tölurnar bera órækt vitni um. Bankarnir eru að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi og breytingar á útlánamarkaði bitna mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem ekki eiga í önnur hús að venda.