Samantekt: Hvers vegna er lagt til að breyta löggjöf um samkeppniseftirlit?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið miklar breytingar á íslensku atvinnulífi, t.d. með gríðarlegum vexti ferðaþjónustu og tengdri atvinnustarfsemi. Einnig blasir við að íslenskt atvinnulíf þarf að mæta erlendri samkeppni í meira mæli en áður hefur þekkst – þróun sem ekki verður stöðvuð — og óþarfar hömlur á hagræðingu og góðri nýtingu innviða atvinnulífsins eru ekki líklegar til að stuðla að árangri í þeirri samkeppni.

Ekki verður annað séð en að frumvarp til breytinga á Samkeppnislögum sem nú liggur inni á samráðsgátt stjórnvalda fram til 4. nóvember nk. til umsagnar, sé til þess að uppfæra samkeppnislöggjöfina til samræmis við þær reglur sem gilda og hafa verið í framkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu og á Norðurlöndunum — og meginreglur íslenskrar stjórnsýslu. Útlit er fyrir að verði frumvarpið að lögum, muni það draga úr drætti, óvissu og kostnaði – bæði fyrir íslenskt atvinnulíf og hið opinbera.

Viljinn tók saman helstu atriði sem lögð eru til í frumvarpinu — dæmi hver fyrir sig.

Ótímabundin ráðning forstjóra verði að fimm árum

Gildandi fyrirkomulag á ráðningu forstjóra Samkeppniseftirlitsins felur í sér að vera ráðinn af stjórn ótímabundið. Það er frávik frá því sem almennt gildir um skipun forstöðumanna sjálfstæðra ríkisstofnana sem eru skipaðir til fimm ára í senn, sbr. forstjóri Fjármálaeftirlitsins og bankastjóri Seðlabanka Íslands.

Í tímabundinni skipun forstöðumanna felist ákveðið aðhald og endurnýjun sem nauðsynleg er, í æðstu embættum ríkisins.

Fyrirtæki meti sjálf hvort samstarf uppfylli samkeppnisskilyrði

Í frumvarpinu er lagt til breyting á samkeppnislögum um að fyrirtæki meti sjálf hvort skilyrði samkeppnisyfirvalda séu uppfyllt – í stað þess að þurfa að sækja um undanþágu frá bannákvæðum hjá samkeppnisyfirvöldum.  Hlutverk Samkeppniseftirlitsins verði að sinna eftirliti eftir á.

Á síðustu áratugum hafi orðið til umfangsmikil réttarframkvæmd samkeppnisreglna þar sem finna megi fjölda ítarlega rökstuddra ákvarðana Samkeppniseftirlitsins, til hliðsjónar fyrir málsaðila. Auk þess úrlausnir áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla um einstök mál, og því séu fjölmörg fordæmi til staðar fyrir fyrirtæki til að styðjast við. Þá hafi framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gefið út leiðbeiningar um skilyrði undanþága sem auðvelda eiga fyrirtækjum að fara að lögum.

Í íslenskum samkeppnisrétti sé framkvæmd og þróun samkeppnisréttar á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) lagt til grundvallar. Þessar breytingar hafi þegar verið gerðar á Evrópurétti árið 2003, og hafi þegar verið teknar upp af flestum ríkjunum á EES-svæðinu, þar sem þær hafi gefist vel.

Heimild til íhlutunar Samkeppniseftirlitsins án brots verði felld brott

Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að að breyta atferli fyrirtækja eða skipulagi þeirra einhliða, án sakar af hálfu viðkomandi. Ákvæðið sé almennt og beiting þess ófyrirsjáanleg, sem skapi réttaróvissu. Annars staðar á EES-svæðinu hafa samkeppnisyfirvöld hafa almennt ekki jafn víðtækar valdheimildir sem þessa. Löggjöf sem er meira íþyngjandi hér á landi en í samanburðarlöndum sé til þess fallin að draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, og auka kostnað fyrirtækja og hins opinbera. Lagt er til að þessi heimild verði felld brott.

Veltumörk tilkynningarskyldra samruna hækkuð

Lagt er til að veltumörk tilkynningarskyldra samruna verði hækkuð úr tveimur í þrjá milljarða kr. heildarveltu samrunaaðila og að ársvelta a.m.k. tveggja samrunaaðila á Íslandi verði 300 m.kr. í stað 200 m.kr. eða meiri, en breytingar á verðlagi og þróun á íslensku atvinnulífi undanfarin ár hafa orðið til þess að þetta er lagt til. Færri tilefni hafi verið til íhlutunar samkeppnisyfirvalda í samrunum þar sem heildarvelta sé undir þremur milljörðum króna, auk þess séu veltumörkin ívið lægri hérlendis en gengur og gerist á Norðurlöndunum – að teknu tilliti til smæðar markaða hérlendis.

Einföldun reglna um stuttar samrunatilkynningar

Reynsla af styttri tilkynningum hafi verið góð, en þegar hefur verið gefið svigrúm til þess ef samruni hefur aðeins möguleg áhrif innanlands, en ekki á EES-svæðinu. Tveir þriðju hlutar samruna hafa verið tilkynntir með styttri tilkynningum frá því heimild til þess var lögfest. Markmið með lögfestingu heimildarinnar var að einfalda ferlið fyrir samrunaaðila og draga úr óþarfa kostnaði. Lagt er til að þær verði styttar enn frekar, í þeim tilfellum sem nýjar eða nýlegar upplýsingar liggja fyrir um markaðinn og vísbendingar séu um skaðleysi fyrirhugaðs samruna.

Eins verði tilkynningar fyrir lóðrétta samruna víkkaðar og einfaldaðar. Samrunaaðilar þurfi t.a.m. aðeins að setja fram rökstutt mat á markaðshlutdeild þeirra á þeim mörkuðum sem samruninn hefur áhrif á, í stað allra starfandi fyrirtækja á þeim mörkuðum sem samruninn hefur áhrif á.

Bætt málsmeðferð samrunamála o.fl.

Lagt er til að málsmeðferðatíminn, frestir og annað verði fært til samræmis við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum, til að bæta málsmeðferð og ljúka henni með einni samfelldri rannsókn. Með því verði tryggður nægur tími til eftirlits og rannsóknar, og komið í veg fyrir að samrunar séu ógiltir vegna tímaskorts, eða að senda þurfi inn tilkynningar á nýjan leik. Eins eru lagðar til breytingar á samrunagjaldi – að það renni til Samkeppniseftirlitsins í staðinn fyrir ríkissjóð. Mögulegt verði að gera sættir á milli aðila án þess að komist sé að niðurstöðu um eiginlegt brot – en ákvæði um slíkt séu til staðar í evrópskum samkeppnisrétti og á Norðurlöndunum. Fullgilding þjóðréttarlegs samnings frá árinu 2017 um samstarf og meðferð samrunamála á milli Norðurlandanna, auk Færeyja og Grænlands – en hann er uppfærsla á eldri samningi frá árinu 2001.

Málshöfðunarréttur Samkeppniseftirlitsins verði felldur á brott

Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að skjóta úrskurðum úrskurðarnefndar samkeppnismála til dómstóla, en lagt er til að hún falli brott. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að úrlausn æðra setts stjórnvalds sé bindandi fyrir lægra sett stjórnvald – en það byggi á að lægra sett stjórnvald geti ekki talist aðili máls þar sem það eigi ekki lögvarða hagsmuni í skilningi stjórnsýsluréttar. Málsmeðferð með málskotsrétti, á nú þremur dómsstigum eftir stofnun Landsréttar, þyki óeðlilega dýr og löng. Ekki þykir líklegt að dómstólar búi endilega yfir meiri sérþekkingu um samkeppnismál en úrskurðarnefndin – og séu því ekki líklegri til að auka neytendavernd frekar eftir að úrskurður nefndarinnar liggur fyrir.