Einn meðstofnandi Wikipedia, Jimmy Wales, hefur sett upp samfélagsmiðilinn WT:Social, sem keppa á við Facebook og Twitter. Hann vonast til að miðillinn nýtist gegn smellubeitum og villandi fyrirsögnum. Frá þessu greindi The Financial Times í vikunni og Medium.

Þetta nýja samfélagsnet, sem hljóðlega fór af stað í síðasta mánuði, telur nú 84 þúsund notendur. Það telst ekki mikið miðað við tvo milljarða notendur Facebook, en notendafjöldinn vex hratt og tvöfaldaðist í síðustu viku. WT:Social (WT er skammstöfun fyrir Wiki Tribute) á að gera notendum kleift að velja sér efnisflokka til að sjá, og deila hlekkjum á fréttir og greinar og ræða þær svipað og á Facebook.
Mun leyfa skoðanaskipti og ekki selja upplýsingar um notendur
Fyrirtækið er aðskilið Wikipedia, en notast er við sama viðskiptalíkan. WT:Social mun því treysta á frjáls framlög notenda til að losna við auglýsingar og kostað efni. Jafnframt mun fyrirtækið aldrei selja upplýsingar um notendur og veita fólki frið til að deila skoðunum sínum – eitthvað sem stærstu samfélagsmiðlarnir geta ekki boðið upp á.
Hann kveðst vera að stofna fyrirtækið „upp úr engu“ og haldið verður fast um budduna í rekstri þess. Markmiðið er að gera samfélagsmiðil sem byggi á réttum upplýsingum, rannsóknum og leiðréttingum notenda.
Auglýsingar og kostað efni dregur úr ferskleika og gæðum upplýsinga
Þó svo að reiknirit Facebook og Twitter sjái til þess að færslur með flestum athugasemdum eða lækum rísi efst, ætlar WT: Social að setja nýjustu hlekkina í efstu sætin. Fyrirtækið hyggst notast við „meðmælahnapp“, svo notendur geti mælt með gæðaefni.
„Viðskiptamódel samfélagsmiðlanna, með hreinum auglýsingum. skapar ákveðin vandamál“ sagði Wales, „vegna þess að lággæða upplýsingar raðast þannig efst.“ Wales væntir ekki hagnaðar af miðlinum, en vonar að hann nái að standa undir sér. Hann kveðst sannfærður um að notendur séu tilbúnir að borga fyrir gæðaefni eins og dæmin sanni hjá t.d. Spotify og Netflix. Biðlisti er vegna nýskráninga, en framlag til samfélagsmiðlsins á að koma fólki framar í röðina.