„Borgarstjórn samþykkti rétt í þessu samkomulag sveitarfélaga og ríkisins um metnaðarfulla uppbyggingu samgönguinnviða til næstu 15 ára á höfuðborgarsvæðinu.“ Þessu tísti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur rétt áðan.
„Þetta eru mikil og ánægjuleg tímamót. Óvissu um Borgarlínu er eytt. Lífsgæði í og umferð í borginni mun stórbatna. Miklabraut mun fara í stokk frá Kringlusvæði að Snorrabratu og hjólastígakerfi höfuðborgarsvæðisins mun verða fyrsta flokks svo fætt eitt sé nefnt. Samkomulagið þýðir að græn og jákvæð umbreyting borgarinnar verður að veruleika.“
Segir klofning í Sjálfstæðisflokknum „áþreifanlegan“
Dagur hnýtir í Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins og bendir á klofning sem gæti verið að myndast í flokknum:
„Sérstaka athygli vakti að Eyþór Arnalds var eini borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem tók til máls og lagði sérstaka lykkju á leið sína til að hnýta í formann sinn og fjármálaráðherra sem væri að selja Keldnaland tvisvar. Klofningurinn innan flokksins var áþreifanlegur.“
„Rétt í þessu samþykkti borgarstjórn samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu með tólf atkvæðum gegn 11. Það er einkennilegt að eftir alla þessa vinnu sem hefur verið unnin og þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í ljósi loftslagsbreytinga af mannavöldum að menn geti verið á móti samkomulaginu,“ sagði Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna af sama tilefni á Facebook.
Hún segir að Reykjavík losi um 352 þúsund tonn af CO2 á ári. Um 245 þúsund tonn komi frá samgöngum og þar af losa bílar 204 þúsund tonn.
Snýst um að stjórnvöld dragi úr gróðurhúsalofttegundum
„Það er algerlega óviðunandi. Þessu þurfum við að breyta. Þetta snýst ekki lengur um val eða frelsi til að fara leiða sinna á þeim fararskjótum sem við veljum. Þetta snýst um það að stjórnvöld geri allt sem þau geta til að draga úr gróðurhúsalofttegundum og nái kolefnishlutleysi. Að þau standi við skuldbindingar sínar gagnvart íbúum og alþjóðasamfélaginu. Það gerðu 12 borgarfulltrúar í dag með því að samþykkja samgöngusamkomulagið og því ber að fagna. Mikilvægum áfanga er náð og nú er bara að bretta upp ermar og ná enn mikilvægari áföngum sem fyrst.“