Rannsókn mála vegna starfsemi Samherja í Namibíu miðar ágætlega, og vonast er til að niðurstaða hennar liggi fyrir fljótlega á nýju ári. Þetta kemur fram í Þorláksmessubréfi sitjandi forstjóra Samherja til starfsmanna fyrirtækisins í dag.
„Ég veit að sum ykkar vildu að Samherji svaraði ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafti. Ekki velkjast í neinum vafa um að við munum leiðrétta allar rangfærslur um félagið. Við erum bara rétt að byrja. Sem betur fer hefur þetta mál ekki haft teljandi áhrif á reksturinn og það er fyrst og fremst ykkur að þakka. Það er vöxtur í sölunni og veiðar og vinnsla ganga vel. Þá hafa samstarfsaðilar okkar hér heima og erlendis staðið með félaginu. Það er baráttuhugur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðvum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins er björt.“