
Að vissu marki er um aukna samkeppni á milli stórveldanna á norðurslóðum að ræða, en um það ritar Albert Jónsson, f.v. sendiherra og framkvæmdastjóri öryggismálanefndar, á vefsíðu sína í vikunni.
Hann segir að vaxandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur náð til norðurslóða.
„Skýr merki þessa sáust í ummælum bandarískra ráðamanna í heimsóknum til Íslands á árinu 2019 og uppástungu sem Bandaríkjaforseti gerði í ágúst um að Bandaríkin keyptu Grænland af Dönum.
Hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna og Rússlands á norðurslóðum eru í grunninn hinir sömu og þeir hafa verið í áratugi og lúta að kjarnorkujafnvæginu milli þessara tveggja stórvelda.
Langdrægar stýriflaugar teknar í notkun
Mikilvæg þróun er að hefjast sem mun þegar fram í sækir auka hernaðarþýðingu norðurslóða. Það stafar af því að langdrægar stýriflaugar sem Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun munu væntanlega á næsta áratug eða svo gefa norðurslóðum nýtt og aukið hlutverk og þá varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu.
Sem fyrr mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum í hugsanlegum átökum þó þau færu aðallega fram langt fyrir norðan landið.
Hernaðarumsvif á vegum Kína eru enn ekki til staðar á norðurslóðum. Hins vegar hefur aukinn áhugi Kínverja á svæðinu birst í áheyrnarþátttöku í starfi Norðurskautsráðsins og þeir hafa mótað sérstaka norðurslóðastefnu.
Leiði hlýnunin til þess að siglingar hefjist þvert yfir Norðurskautið – sem að sumra mati gæti orðið um miðja öldina – mun það valda grundvallarbreytingu á þýðingu norðurslóða. Upp úr því væri viðbúið að samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu kæmi að fullu fram á norðurslóðum.“
Umfjöllunina í heild sinni má nálgast hér.