Ferðaþjónustan er orðin langstærsta atvinnugrein þjóðarinnar og gríðarlegir hagsmunir undir á öllum sviðum hennar. Þess vegna er ekki að undra að viðkvæm staða flugfélaganna Icelandair og Wow air skapi rafmagnað andrúmsloft og til verði samsæriskenningar.
Ein slík kenning, sem er afar lífseig, er að almannatenglar í einhverjum tengslum við Icelandair, hafi kynt undir erfiðri umræðu um keppinautinn undanfarnar vikur og mánuði.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens hefur m.a. gert þessa samsæriskenningu að umtalsefni og Viljinn er eflaust einn margra fjölmiðla sem hefur fengið ábendingar í þessum efnum, þótt ekkert hafi hann séð svart á hvítu sem renni stoðum undir þennan grun.
DV greinir frá því í helgarblaði sínu, að þann 20. nóvember síðastliðinn voru almannatenglarnir Friðjón Friðjónsson og Gísli Freyr Valdórsson, hjá KOM, skráðir sem innherjar hjá Icelandair Group hf.
Blaðið rifjar upp að fyrir nokkrum mánuðum hafi sú saga gengið fjöllum hærra að starfsmenn KOM stæðu að baki neikvæðum fréttum um flugfélagið WOW air í þeim tilgangi að spilla fyrir frægu skuldabréfaútboði fyrirtækisins.
Eyjan skrifaði frétt um þær ásakanir um miðjan september og brást Friðjón hart við þegar hann var spurður út í þessa kenningu. „Þetta eru fullkomin og alger og helber ósannindi,“ sagði Friðjón þá.
Gísli Freyr, sem er einnig ritstjóri Þjóðmála, brást einnig við umfjölluninni og vísaði fréttunum til föðurhúsanna.
Icelandair segir í svari til DV að aðkoma KOM-manna miðist aðeins við 20.nóvember.
Í þessu sambandi má benda á að sterk fylgni hefur verið milli fregna af rekstrarvandræðum Wow air og gengi bréfa í Icelandair.