„Fulltrúi Íslands lýsti því yfir í ræðu á ríkjaráðstefnu í Marrakesh í Marokkó í vikunni að Ísland styddi samþykkt Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga (e. Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration). Um leið áréttaði fulltrúinn skilning íslenskra stjórnvalda á efnisatriðum samþykktarinnar, meðal annars að hún væri hvorki lagalega bindandi né skerti fullveldisrétt ríkja á nokkurn hátt enda réðu þau sínum eigin lögum og stefnu í innflytjendamálum eftir sem áður.“
Þetta segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í skriflegu svari við fyrirspurn Viljans um þá fyrirvara sem íslensk stjórnvöld gerðu við samþykkt samkomulagsins í Marrakech á dögunum.
Bandaríkin og ýmsar þjóðir fleiri vildu ekki samþykkja samkomulagið og fjölmörg ríki gerðu ýmsa fyrirvara. Samþykkt Íslands á samkomulaginu hefur verið nokkuð gagnrýnd á þeim forsendum að það geti falið í sér að landamæri Íslands opnist fyrir fólki alls staðar að úr heiminum og það skerði fullveldi landsins. Því hefur verið hafnað afdráttarlaust, m.a. af formanni utanríkismálanefndar Alþingis.
Viljinn óskaði því eftir því að fá nánari skýringar á þeim fyrirvörum sem Ísland hefði sett fram af þessu tilefni.
Sveinn leggur áherslu í svari sínu, að skjalið hafi aðeins fjallað um löglega farendur, þ.e. ekki þá sem ferðast á milli landa eftir ólöglegum leiðum.
„Jafnframt var undirstrikað að þátttaka í samþykktinni hefði engin áhrif á þau réttindi sem íslenskir ríkisborgarar nytu samkvæmt landslögum og stjórnarskrá, þar á meðal grundvallarréttindi á borð við tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla.
Samþykkt Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga verður staðfest á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðar í þessum mánuði. Þar gefst íslenskum stjórnvöldum færi á að árétta enn frekar skilning sinn á samþykktinni í samræmi við það sem fram kom í ræðunni í Marrakesh. Auk Íslands er búist við að fleiri ríki fari þá leið að samþykkja samþykktina með fyrirvara um túlkun á henni, þar á meðal Danmörk, Noregur og Bretland,“ segir upplýsingafulltrúinn í svari sínu.