Verkalýðssamtök í Noregi hafna orkueftirliti Evrópusambandsins

Vatnsaflsvirkjunin í Tafjord í Noregi. Mynd/Tafjord

Landsfundur Verkalýðssamtaka í Noregi (n. Fellesforbundet) krefst þess að Noregur verði ekki undir eftirliti ACER, sameiginlegri orkueftirlitsstofnun Evrópusambandsins (ESB). Frá þessu segir í tímaritinu FriFagbevegelse í gær.

Að Noregur hafi gengist undir eftirlit ACER, er afar umdeilt hjá verkalýðsfélögum. Landsfundur Samtaka verkalýðsfélaga þvingaði í gegn að samtökin breyttu um stefnu, í þá átt að Noregur hætti í ACER. Til að byrja með var stjórn samtakanna á móti ACER, en miðlaði síðan málum, með þeim fyrirvara að ekki yrðu lagðir fleiri sæstrengir. Ef ACER færi fram á það myndi Noregur draga sig út úr þeim hluta orkutilskipunar ESB.

En það nægði ekki landsfundarmeðlimum, sem kusu með naumum meirihluta um tillögu þess efnis að samtökin breyttu um stefnu og höfnuðu eftirliti ACER alfarið.

Einnig var kosið um tillögu gegn því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) geti þvingað norsk stjórnvöld til að einkavæða norska vatnsorku, og hlaut hún einnig nauman meirihluta. Nú þegar hefur verið gefið leyfi fyrir því að þriðjungur norskrar vatnsorku sé í einkaeigu.

Talið er að niðurstaða fundarins gæti haft áhrif á EES-samstarf Noregs.

(Fréttin hefur verið leiðrétt).