Seðlabankinn heldur vöxtum óbreyttum: Væntingar um aukna verðbólgu

Már Guðmundsson fv. seðlabankastjóri.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%.

Samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur 5% á fyrstu níu mánuðum ársins sem er lítillega meira en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvemberspá sinni.

Verðbólga hefur aukist eftir því sem liðið hefur á árið í takt við spá bankans og mældist 3,3% í nóvember. Vegur þar þyngst mikil hækkun innflutningsverðs undanfarna mánuði en gengi krónunnar hefur lækkað um liðlega 11% frá áramótum.

Þessi gengislækkun og áhyggjur af komandi kjarasamningum hafa komið fram í væntingum um frekari aukningu verðbólgu. Taumhald peningastefnunnar, eins og það mælist í raunvöxtum Seðlabankans, hefur því heldur losnað á ný. Á móti koma vísbendingar um að spenna haldi áfram að minnka á næstunni. Þá er hækkun verðbólguvæntinga frá síðasta fundi enn sem komið er fyrst og fremst bundin við skammtímavæntingar og hægt hefur á lækkun gengis krónunnar. 

Nýlega var tilkynnt að til stæði að losa síðasta hluta aflandskrónueigna sem lokuðust inni við innleiðingu fjármagnshafta í kjölfar fjármálakreppunnar. Ekki er eðlilegt að úrlausn slíks fortíðarvanda lækki gengi krónunnar og því mun Seðlabankinn grípa inn í á gjaldeyrismarkaði í samræmi við fyrri yfirlýsingar. Í því samhengi mun hann einnig horfa til þess að vísbendingar eru um að gengislækkunin undanfarið hafi fært raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi, segir í tilkynningu nefndarinnar.