„Þetta er ekkert annað en stríðsyfirlýsing við kröfur hreyfingarinnar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, aðspurður um ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Sagði Bjarni að skattar yrðu ekki lækkaðir ofan á „óábyrgar“ launahækkanir í kjarasamningum.
Ragnar vísar til þess að aðilar vinnumarkaðarins ætli að funda með forystumönnum ríkisstjórnarinnar í dag og þar verði þessum sjónarmiðum komið skýrt á framfæri.
Í blaðaviðtalinu rifjaði fjármálaráðherra upp að ríkisstjórnin hefði boðað skattalækkanir í þágu þeirra sem væru í neðra skattþrepi, með lægri og millitekjur. Það væri „óskynsamlegt að fylgja því eftir ef kjarasamningar fara úr böndunum og menn eru að taka út meira en innistæða er fyrir“.
Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ, gagnrýndi í morgun Þingflokk Vinstri grænna fyrir að láta hótanir fjármálaráðherra í garð verkafólks átölulausar, ef það vogar sér „að standa þétt um þá sanngjörnu kröfu um að lágmarkslaun dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar.“
„Ekki orð frá VG þótt hótanir fjármálaráðherra dynja á alþýðu þessa lands í aðdraganda kjarasamninga,“ segir Vilhjálmur.
Skýrt hefur verið frá því, að skiptar skoðanir séu innan Starfsgreinasambandsins um næstu skref í kjarabaráttunni. Mörg stærri félögin segja mál þegar í hnút og vilja vísa viðræðum til Ríkissáttasemjara, en meirihluti aðildarfélaga er enn þeirrar skoðunar að skoða beri næstu skref þegar samningar verða orðnir lausir um áramótin.