Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kveðst ekki sjá eftir því að stjórn flokksins hafi ákveðið að reka Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson úr flokknum þótt fylgið hafi dvínað mjög í kjölfarið. Hún segir flokkinn í vissum skilningi hafa stækkað við brottreksturinn og varar við eftirlíkingum á borð við Sósíalistaflokk Íslands.
Þetta kom fram í viðtali Bjartar Ólafsdóttur, fv. ráðherra, við Ingu á Þingvöllum á K100 í gærmorgun.
Um það sagði Inga að í vissum skilningi hefði flokkurinn orðið stærri eftir að Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr flokknum. Hún og fleiri væru fórnarlömb í Klaustursmálinu og hún væri orðin þreytt á að ræða það.
Auk þess væri ljóst að kjósendur Flokks fólksins hefðu ekki verið að greiða atkvæði til auðkýfingsins Sigmundar Davíðs, sagði hún, aðspurð um hvort þeir Ólafur og Karl Gauti væru á leið í Miðflokkinn.
Þegar Björt spurði Ingu út í þá staðreynd að Flokkur fólksins hefði upp á síðkastið tapað fylgi meðan Sósíalistaflokkurinn bætti við sig svaraði Inga: „Varist eftirlíkingar.“