Stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna (BHM) vinna nú að kröfugerð sinni og er undirbúningur fyrir samningatörn vorsins vel á veg kominn. Bandalagið á viðræður við þrjá viðsemjendur samtímis; ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. 30% launafólks hjá ríkinu eru í stéttarfélagi innan BHM en 14% hjá sveitarfélögum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og fv. þingmaður, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu, að háskólamenntaðir ætli sér ekki að sitja eftir þegar kemur að launahækkunum í vetur.
Er formaðurinn þar augsýnilega að bregðast við vaxandi umræðu af hálfu ASÍ og Eflingar, svo dæmi séu tekin, um mikilvægi þess að hækka lægstu launin sérstaklega í komandi kjarasamningum.
„Í umræðunni um mannsæmandi kjör er ekki nóg að einblína á muninn á milli hæstu og lægstu tekjutíundarinnar í samfélaginu. Það þarf einnig að skoða stöðu millitekjufólks, alls þorra almennings. Heildarmyndin skiptir máli og sú staðreynd að ráðstöfunartekjur launafólks verða aldrei metnar án tillits til skattbyrði og þess stuðnings sem ríkið veitir í velferðarkerfunum. Þessir þættir þurfa að vinna saman og þess vegna m.a. er nú horft til frumkvæðis stjórnvalda í húsnæðis- og skattamálum,“ segir Þórunn.
„Enginn deilir um mikilvægi menntunar fyrir hagsæld og góð lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Dýpra virðist á því að viðurkennt sé að einstaklingurinn þurfi einnig að njóta ábatans af því að sækja sér háskólamenntun. Ávinningurinn af því að afla sér háskólamenntunar er einfaldlega of lítill á Íslandi og minni en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við,“ bætir hún við og nefnir, máli sínu til stuðnings, að margir háskólamenntaðir greiði fjárhæð sem samsvarar ráðstöfunartekjum eins mánaðar í árlegar afborganir námslána. Krafa um að komið verði til móts við greiðendur námslána, t.d. með sérstökum ívilnunum í skattkerfinu, muni vega þungt á vormánuðum.
„Í komandi kjaraviðræðum verður ekki hvikað frá kröfunni um að fjárfesting fólks í menntun skili því eðlilegum og sanngjörnum ávinningi. Ýmsir hópar innan okkar raða eiga langt í land með að fá menntun sína að fullu metna til launa,“ segir formaður BHM í grein sinni.