Segir sveiflujöfnunaraukann munu dýpka niðursveifluna

Seðlabanki Íslands mun leggja sveiflujöfnunarauka á bankakerfið á laugardaginn.
Þórður Pálsson.

„Þegar maður skoðar blöðin er ekki annað að sjá en að hagkerfið sé í niðursveiflu með tilheyrandi uppsögnum. Samt sem áður er [Seðlabankinn], að tillögu Fjármálastöðugleikaráðs, að leggja 25 punkta sveiflujöfnunarauka á bankakerfið á laugardaginn til að vinna gegn uppsveiflu!“

Um þetta tístir Þórður Pálsson, bankamaður og f.v. forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, á Twitter í dag.

Gömul ákvörðun við breyttar aðstæður

„Ákvörðun Fjármálastöðugleikaráðs var tekin á 70 mínútna fundi 19. desember 2018 þegar aðstæður í hagkerfinu voru allt aðrar eins og sjá má í fundargerð ráðsins. Nú eru lítil útlán til fyrirtækja meðal helstu áhyggja Seðlabankans þá er að koma til framkvæmda eiginfjáraukar sem minnka útlánagetu bankanna og voru settir á, þrátt fyrir að viðnámsþróttur bankanna [hafi verið] metinn góður!

Þetta hefur farið furðu hljótt og sætt furðu lítilli gagnrýni. Alþingismenn ættu að krefjast þess að þessar nefndir og ráð öll skýri ákvarðanir sínar. Styðst t.d. notkun eiginfjárauka við einhver reynslugögn? Hvað er gert þegar hagþróun verður með öðrum hætti en spárnar sem stuðst var við? Hver er áreiðanleika spáa SBÍ? Hver þarf hann að vera til að ráðið telji sig geta beitt ómarkvissu tæki eins og sveiflujöfnunarauka?

Embættismenn lágmarka orðsporsáhættu á kostnað efnahagslífsins

Peningastefnan eins og svo margt annað í stjórnsýslunni hefur ásjónu vísinda sem einungis sérfræðingum er treystandi fyrir. En því betur sem málið er skoðað því meira lítur hún út fyrir að ráðast af hyggjuviti þeirra sem lítið hafa. Þeir sem [sitja?] í Fjármálastöðugleikaráði er mjög einsleitur hópur embættismanna með enga reynslu úr atvinnulífinu.

Þegar maður spyr sig hvaða hagsmuni þetta fólk hefur þá er svarið augljóst: Að lágmarka eigin orðsporsáhættu. Því yrði refsað fyrir fjármálaáfall en ekki langvarandi lágan hagvöxt jafnvel þótt kostnaður af honum sé miklu meiri. Frjálst hagkerfi er ekki byggt á ráðum og nefndum sem hafa vit fyrir fólki heldur skýrum reglum sem gera borgurunum kleift að framkvæma hugmyndir sínar án þess að lenda í árekstrum og treystir á hyggjuvit þeirra.“