Sennilega forvitnilegasta bókin í jólabókaflóðinu þetta árið

Ásdís Halla Bragadóttir.

Kolfinna Von Arnardóttir gagnrýnir bókina Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. Útgefandi: Veröld.

Hornauga fjallar um ferðalag Ásdísar Höllu Bragadóttur við að kynnast blóðföður sínum og öðrum ættingjum í hans legg. Það gerir hún á fullorðinsaldri og lýsir einstaklega vel þannig að athygli lesandans er náð frá fyrsta orði.

Fjölmiðlar gripu strax umfjöllun höfundar um tilfinningar í garð bróður síns, eða eins og hún kallar það í bókinni „sína eigin spegilmynd gena“. Eftir að hafa tekið nokkra daga í að jafna mig á grípandi frásögnum fjölmiðla um það mál, sem skorar hefðbundnar staðalímyndir um systkini á hólm, fékk ég bókina í hendurnar og sökkti mér í hana.

Fyrir mér er hún tvíþætt;  skrifuð út frá Ásdísi Höllu sjálfri og svo langömmu hennar heitinni hins vegar. Sagan fer fram og aftur í tíma og sögulegu ljósi.

Það þarf frásagnir eins og þessa til að kenna okkur, þroska okkur og um leið leyfa okkur að njóta góðrar sögu.

Ásdís Halla gefur lesendum einstakt tækifæri í bókinni með því að fá að vera með í átakanlegu og mögnuðu ferðalagi að því sem stendur manneskjunni næst, eigin erfðum, fjölskyldu og tilfinningum.

Ég tek ofan fyrir henni að stíga fram með svo virðulegum hætti og lýsa af algjöru hispursleysi flókinni og átakanlegri lífsreynslu.

Sagan öll fær mann til að upplifa sterka mannúð í dómhörðu nútímasamfélagi og fyrri tíða, því fyrst og fremst erum við manneskjur, með alla okkar kosti og galla. Þar er enginn maður nokkur undantekning.

Samfélagið sem við búum í er stöðugt að þroskast. Staðalímyndir breytast og þekking verður meiri. Það þarf frásagnir eins og þessa til að kenna okkur, þroska okkur og um leið leyfa okkur að njóta góðrar sögu.

Kolfinna Von Arnardóttir gagnrýnir bókina Hornauga.

Bókin snýst ekki einungis um höfundinn, heldur líka nýuppgötvaða langömmu hennar. Höfundur nær að rekja söguna sem hingað til hefur verið sögð út frá sjónarhorni karla og kemst að því að söguhetjur forfeðra hennar voru að miklu leyti hennar formæður. Hér er stuðst við heimildir til að endursegja söguna út frá konum ættarinnar. Nokkuð sem fær mann sjálfan til að horfa á söguna í nýju samhengi.

Niðurstaða: Hornauga er sennilega forvitnilegasta bókin í jólabókaflóðinu þetta árið. Öflug og áhrifamikil saga sem allir ættu að kafa ofan í. Hún gleypir mann á fyrstu blaðsíðu.