Sextugur vígslubiskup: Vill að Þjóðkirkjan láti rödd sína heyrast

Vígslubiskupshjónin í Skálholti.

Séra Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, fagnaði sextugsafmæli hinn 6. desmber sl. Séra Kristján var kjörinn vígslubiskup á vordögum og sagði við það tækifæri, að Þjóðkirkjan þurfi að láta rödd sína heyrast í álitaefnum dagsins. 

Kristján sagði að þótt íslenska þjóðkirkjan reki ekki sjúkrahús, dvalarheimili fyrir aldraða eða búðir fyrir flóttafólk eins og kirkjur í Evrópu þurfi að taka undir kröfur um réttlæti og ábyrgð.

Kristján hefur verið sóknarprestur í Húnaþingi vestra, Vestmannaeyjum og Eyrarbakkaprestakalli. Hefur verið ritstjóri Kirkjuritsins, setið kirkjuþing og verið í kirkjuráði og formaður Prestafélags Íslands.

Kristján var vígður til prests á Hólum í Hjaltadal árið 1989 og fyrsta prestakallið hans var Breiðabólsstaðarprestakall í Húnavatnsprófastsdæmi. Þar þjónaði Kristján í níu ár. Árið 1998 var Kristján kosinn og skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum og gegndi embættinu í 17 ár. Síðustu tvö ár hefur Kristján þjónað við Eyrarbakkaprestakall.

Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir 6 prófastsdæmi sem eru Suðurprófastsdæmi, Kjalarnessprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra, Vesturlandsprófastsdæmi og Vestfjarðarprófastsdæmi.

Sr. Kristján er fæddur 6. desember 1958 og vígður prestur 9. júlí 1989 á Hólum í Hjaltadal af sr. Sigurði Guðmundssyni, vígslubiskupi. Kristján er sonur Björns Sigurðssonar, fv. lögregluvarðstjóra, og Kristínar Bögeskov, djákna, en Kristín er dáin 2003.

Hann er varaformaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.

Á árum áður hefur sr. Kristján verið ritstjóri Kirkjuritsins, formaður Prestafélags hins forna Hólastiftis, formaður Prestafélags Íslands, formaður samráðsnefndar Norrænu prestafélaganna og formaður stjórnar Stafkirkjunnar og átt sæti í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar, á kirkjuþingi, í kirkjuráði, í stjórn Skálholts og í ráðgjafarnefnd um Evrópusambandsumsókn Íslands. Þá hefur Kristján verið blaðamaður, lögregluþjónn og starfsmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum. Hann hefur verið félagi í hjálparsveitum Landsbjargar frá unglingsaldri, hestamaður og skáti. Hann hefur einnig verið leiðsögumaður hjá Íslensku fjallaleiðsögumönnum og víðar.

Sr. Kristján lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1979 og stundaði framhaldsnám í klínískri sálgæslu við Tampa General Hospital í Tampa á Flórída 2003 – 4.

Eiginkona sr. Kristjáns er Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólakennari og leiðsögumaður, dóttir Bjarna B. Ásgeirssonar og Elínar Guðmundsdóttur.

Guðrún Helga hefur starfað með Blátt áfram að forvörnum gegn kynferðisbrotum á börnum. Hún er fv. leikskólastjóri og leikskólafulltrúi. Þau eiga fimm börn og fjölmörg barnabörn.