Siðferðisofstæki hefur heltekið umhverfismálaumræðuna

Úr sjónvarpsþættinum á Channel 4 í Bretlandi.

Ég hef séð nokkrar vitlausar pólitískar umræður á ævinni, en engar jafn sturlaðar og loftslagsumræðurnar á Channel 4 í gærkvöldi. Þátturinn varð ágætis samantekt á því hversu stjórnlaus umræðan um boðaða loftslagsvá er orðin.

Um þetta skrifar Brendan O’Neill í Spectator í gær, og Viljinn þýddi.

Í raun var þetta ekki umræða. Allir í sjónvarpssal voru sammála um að heimsendir sé í nánd og að mannkynið sé að menga sig út úr þessari jarðvist. Verði ekki gripið til aðgerða strax gegn plaströrum og eyrnapinnum – án gríns – þá muni börnin okkar erfa hrjóstruga eyðiplánetu.

Opinber sýning á móðursýkistali umræðuelítunnar

Þarna var lítið um pólitíska umræðu, en þátturinn var þeim mun meira eins og sjálfshjálpargrúbba stjórnmálamanna í heljargreipum óttans við endalok heimsins. Þarna fór fram opinber sýning á móðursýkislegu tali umræðuelítunnar, sem skýrði nákvæmlega ekkert hin alvarlegu pólitísku mál sem Bretland stendur nú frammi fyrir.

Channel 4, sem er sjónvarpsstöð mest pólitískt rétthugsandi, umhverfismeðvituðustu erki-andstæðinga BREXIT, setti tóninn með fáránlega tilfinningahlaðinni stuttmynd, áður en umræðurnar hófust.

Við fengum að sjá sorphauga í einhverju ónefndu þriðja heims ríki. Við fengum að sjá flóð. Við fengum að sjá kjarrelda í Ástralíu og síðan – virkilega hjartnæmt – sviðinn Kóala-björn. Kóala-birninum var bjargað, en svo drapst hann af sárum sínum. Þetta er þér að kenna, þú heimski, mengandi íbúi iðnvædds samfélags – voru skilaboðin frá Channel 4 til almennings í Bretlandi.

Gamla testaments refsingar fyrir léttúðuga hegðun mannkyns

Stuttmyndin veitti ómeðvitað innsýn í menningarlegt siðferðisofstæki sem hefur heltekið umhverfismálaumræðuna. Hugmyndin um að vítiseldar og hamfaraflóð séu einhvers konar refsing fyrir léttúðuga hegðun mannkynsins, er fengin beint upp úr Gamla testamentinu. Það eina sem vantaði voru plágur og engisprettufaraldrar.

Sjöunda plágan eftir John Martin.

Kjaftæðið stefndi hratt niður á við, í orðræðu umhverfismála pólitíkusa um fórnirnar sem við verðum öll að færa, ef við viljum koma í veg fyrir dómsdag sem sé á næsta leiti.

Nicola Sturgeon, ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, montaði sig af því að hafa bannað eyrnapinna í Skotlandi. Skotar voru einnig fyrstir til að banna sogrör úr plasti, sagði hún. Sögulegt afrek! Jo Swinson, formaður Frjálslyndra í Bretlandi, klökknaði yfir því að ungur sonur hennar hafi aldrei séð broddgölt (eða íkorna, geri ég ráð fyrir …). Það er pólitísk sýn sem maður hélt að maður myndi aldrei upplifa: „Sjáið fleiri broddgelti – kjósið Frjálslynda.“

Þar sem að Swinson getur ekki talað lengur en í fimm mínútur án þess að hrauna yfir BREXIT, lýsti hún því sem „glæp gegn loftslaginu.“ Jahérna, BREXIT er svo mikil illska að það er nú að stuðla að endalokum lífsins á jörðinni eins og við þekkjum það, með því að draga Bretland út úr loftslagsmálaumræðunni í ESB.

Þöggunartilburðir gagnvart gagnrýnisröddum

Allir lofuðu að færa fórnir. Adam Price af Plaid Cymru sagði að hann mundi byrja að nota taubleyjur á barnið sitt og hjóla í vinnuna. Þá geta Kóala-birnir í Ástralíu andað léttar. Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins kvaðst leggja sitt af mörkunum með því að slökkva á hitaveitunni heima hjá sér. Hann álíti fólk sem hitar húsið sitt vesalinga.

Vesaldómur er góð samantekt á því sem þarna fór fram. Yfirskriftin var umhverfis-vesaldómur. Þarna fór fram orgía af dómadags niðurrifsblaðri. Hvar voru lausnirnar, eins og t.d. að fjárfesta í kjarnorku eða erfðarannsóknum? Hvergi.

Við fengum líka að sjá þöggunartilburði umhverfisstefnunnar. Guð hjálpi hverjum þeim sem gagnrýnir eitthvað af þessu umhverfismála þvaðri. Sian Berry, frá Græningjum, sagði að við verðum að gera það sem vísindin segi okkur að gera, í stað þess að fylgja pólitískum raunveruleika.

Valdið til vísindamanna – Hvað með lýðræðið?

Þetta kemur mér ansi ólýðræðislega fyrir sjónir. Vísindin skipa okkur ekki fyrir. Hlutverk vísindanna er að rannsaka og birta niðurstöður um raunheiminn. Það eru stjórnmálamenn – og umfram allt, kjósendur þeirra, sem ákveða hvað skal gert í samfélaginu. Á meðan Berry og fleiri skipa okkur að hlýða vísindunum, fara þeir með vísindin sem óskeikult guðlegt vald sem fyrirskipi okkur að skera stakkinn þröngt og lifa smátt.

Það kemur ekki á óvart að stjórnmálaelítan sé ófær um að sannfæra kjósendur um að niðurskurður sé nauðsynlegur í hinum lýðræðislega veruleika. Þessvegna kýs hún að notast við, að því á að virðast, óumdeilanlegt vald vísindanna til þvingunar til að smækka við sig.

Þetta var grátbroslegur skrípaleikur. Samkoma stjórnmálamanna sem duttu hver um annan þveran í kapphlaupinu um að vera umhverfis heilagri en hinir. Það sem þarf í umhverfismálaumræðuna er jarðtenging. Heimurinn er ekki að farast, mannkynið er ekki eyðileggingarafl og æðsta markmiðið þarf að vera að frelsa mannfólkið undan fátækt, en ekki að grenja yfir Kóala-birni. Hefði einhver sagt það, hefði þátturinn strax nálgast það að vera umræðuþáttur.