Sigmundur Davíð: Borgarstjórinn kann að spila á kerfið og ríkisstjórnina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Kerfisræðið er að verða allsráðandi á Íslandi. Ég hef talað um þetta í nokkur ár. Samt hefði ég ekki trúað því að þetta myndi gerast eins hratt og við sjáum nú“, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins á facebook síðu sinni í kvöld.

Hann gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega með þessari upptalningu:

„1. Formaður Sjálfstæðisflokksins samþykkti að ríkið fjármagni kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. Án þess að ríkisstjórnin svo mikið sem ræddi það við þjóðþingið, hvað þá minnihlutann í borginni.“
2. Refsigjöld verða lögð á fólk fyrir að aka um vegi höfuðborgarsvæðisins, vegina sem það er þegar búið að borga með ofteknum sköttum og gjöldum.
3. Í ofanálag er ríkið að fara að reka opinbert fasteignafélag og selja verðmætasta byggingarland Íslands til að fjármagna áform meirihlutans í Reykjavík.“

Þarna vísar Sigmundur Davíð til samkomulagsins sem full­trú­ar rík­is­valds­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir­rituðu í dag og greint var frá á vef Stjórnarráðsins í dag, um 120 milljarða upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna næstu fimmtán árin, en það inniheldur m.a. framkvæmdir við Borgarlínu, ásamt veggjöldum. Félag í eigu ríkis og sveitarfélaga verður stofnað um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra. Ríkið skuldbindur sig til að leggja uppbyggingarland að Keldum inn í félagið og mun ábati af þróun þess renna til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Málið ekki kynnt þinginu eða minnihluta borgarstjórnar

Viljinn greindi frá því í dag að Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hafi undrast að samkomulagið hafi verið undirritað án þess að vera kynnt fyrir minnihlutanum í borgarstjórn, en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði undir það ásamt forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur og samgönguráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni.

„Þessu var öllu var haldið leyndu frá þinginu, ráðherra neitaði að mæta á nefndarfund eða sýna samningsdrögin. Ráðherrar virðast auk þess ekki geta svarað því hvað borgarlína er eða hvernig staðið verði að gjaldtökunni. Málið var svo bara kynnt með glærusýningu frá auglýsingastofu,“ heldur Sigmundur Davíð áfram, og bætir við að lokum:

„Borgarstjórinn má þó eiga það að hann kann að spila á kerfið …og ríkisstjórnin fylgir með í kaupbæti.“