Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, lýsti yfir fyrirvara við lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands þegar hann átti fund með David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, í Reykjavík undir lok október fyrir þremur árum. Þetta kom fram í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins sem send var fjölmiðlum eftir fundinn.
Forsætisráðherrar Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þáðu boð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um þátttöku í málþinginu Northern Future Forum í Reykjavík 28. og 29. október 2015. Þetta var í fyrsta sinn á lýðveldistímanum sem forsætisráðherra Bretlands heimsótti Ísland.
Samhliða málþinginu áttu Cameron og Sigmundur Davíð tvíhliða fund um samskipti og samstarf landanna.
Björn Bjarnason, fv. ráðherra, hefur ítrekað lýst því yfir að Sigmundur Davíð hafi viljað leggja sæstreng og fundurinn með Cameron sé til marks um það. Sjá m.a.: Sigmundur Davíð vildi sæstreng með Cameron.
Björn getur ekki fyrirvara sem settir voru af hálfu íslenska forsætisráðherrans. Í yfirlýsingu sem send var út til fjölmiðla að fundinum loknum sagði meðal annars:
„Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér. Miðað er við að umræddur vinnuhópur skili niðurstöðu innan sex mánaða.“
Í framhaldinu skilaði verkefnisstjórn þessari skýrslu til iðnaðarráðherra um lagningu sæstrengs.