Sigurður E. Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins og fyrrverandi borgarfulltrúi og varaþingmaður Alþýðuflokksins, er látinn.
Sigurður var fæddur í Reykjavík 18. maí 1932 og lést eftir skamma sjúkrahúslegu. Hann varð tæplega 87 ára að aldri.
Eiginkona hans var Aldís Pála Benediktsdóttir frá Grímsstöðum á Fjöllum, sem lést árið 2007. Sigurður lætur eftir sig þrjú börn, tvö barnabörn og eitt barnabarnabarn.
Sigurður gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í félagsmálum og á vegum Alþýðuflokksins.
Fór í sagnfræði eftir starfslok
Eftir að Sigurður lét af starfi forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins (forvera Íbúðalánasjóðs) tók hann sig til og innritaðist í sagnfræðinám við Háskóla Íslands. Lauk hann þar B.A-prófi og síðar meistaraprófi í sagnfræði.
Í viðtali við vefinn Lifðu núna fyrir fimm árum, sagðist Sigurður vinna að doktorsritgerð í sagnfræði sem heitir Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar og fjallar um sögu velferðar á Íslandi frá 1889 til 1946.
„Sigurður hóf nám í læknisfræði eftir stúdentspróf en hætti og fór að vinna hjá Alþýðuflokknum og á Alþýðublaðinu. Hann var svo framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins í 27 ár, en þá var ekki óskað eftir starfskröftum hans lengur. Hann var 66 ára.
Hann segist þá hafa ákveðið að nota næstu ár þannig, að það gagnaðist sér og öðrum sem best og ákvað að láta þann gamla draum rætast, að setjast á skólabekk í Háskóla Íslands.
„Mér leist best á sagnfræðina“, segir Sigurður, „og hef verið í henni í 16 ár. Ég byrjaði á byrjuninni, en byrjaði að undirbúa doktorsritgerðina fyrir 7 árum“.
„Þú heldur áfram þegar ég er farin“
Það var um svipað leyti og hann missti eiginkonu sína Aldísi Benediktsdóttur. Hún var búin að stríða við veikndi í nokkurn tíma og hann tók sér hlé frá náminu þess vegna. Þegar ljóst var hvert stefndi sagði hún við hann „Þú heldur áfram þegar ég er farin“.
Og það gerði hann.
Hann segir að námið hafi verið mikil lífsfylling. „Þetta er svo skemmtilegt og ég hef ekki tekið mér sumarfrí í mörg ár. Mér finnst sumarið svo góður vinnutími. Þá eru fáir hér, veðrið yndislegt og umhverfið dásamlegt. Maður situr hér í rólegheitum og reynir að pota þessu áfram. Ég held að námið eigi stóran þátt í því hvað ég hef haldið góðri heilsu“, sagði Sigurður E. Guðmundsson í viðtali fyrir fimm árum.