Sjálfstæðismenn fá Jón Baldvin til að ræða orkupakkann

Eins og fram hefur komið er heilmikil andstaða við innleiðingu orkupakka þrjú í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samstarfsins.

Ummæli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fv. utanríkisráðherra, á dögunum um að innleiðingin geti þýtt stórhækkað raforkuverð hér á landi, vöktu mikla athygli.

Jón Baldvin er auðvitað fv. formaður Alþýðuflokksins og var utanríkisráðherra þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum.

Í grasrót Sjálfstæðisflokksins fer fram mikil umræða um málið og haldnir hafa verið mjög fjölmennir málefnafundir. Á tímum þegar stjórnmálaþátttaka fer minnkandi og erfiðara er að fá fólk en áður til að mæta á pólitíska fundi, sætir tíðindum þegar næst að fylla samkomuhús.

Nú hafa sjálfstæðisfélögin í Skóga- og Seljahverfi í Reykjavík boðað til opins fundar um orkupakkann næstkomandi fimmtudag. Hefst fundurinn kl. 20 og verður haldinn í Mjóddinni, Álfabakka 14.

Frummælendur verða Elías Elíasson og Jón Baldvin Hannibalsson og má búast við fjörlegum umræðum.