Skemmtiferðaskip menga loftið miklu meira en allur bílafloti Evrópu

Skemmtiferðaskip í eigu eins fyrirtækis losa um tíu sinnum meira af brennisteinsoxíðum (SOx) en allar rúmlega 260 milljón bifreiðar Evrópubúa. Þetta kemur fram í niðurstöðu skýrslu stofnunar sem rannsakar umhverfisáhrif samgangna, Transport & Environment (T&E), sem kom út í júní í sumar. Brennisteinsoxíð valda m.a. heilsutjóni, súrnun sjávar og súru regni.

Vísir greindi frá því fyrir tæpri viku síðan að magn PM0,1, sem er fíngerðasta tegund af svifryki, hafi mælst 200 sinnum meira en vanalega, á bryggjunni við Sundahöfn í Reykjavík, þegar skemmtiferðaskipið Viktoría drottning lá þar við höfn. Á annað hundrað skemmtiferða- og farþegaskipa séu væntanleg til Reykjavíkur á árinu.

Reykjavík á lista yfir menguðustu hafnarborgirnar

Spánn, Ítalía, Frakkland og Noregur eru þau lönd sem verða helst fyrir brennisteinsloftmengun af völdum skemmtiferðaskipa, skv. skýrslu stofnunarinnar. Menguðustu hafnirnar af þeirra völdum eru Barcelona í efsta sæti, næst Palma á Mallorca og svo Feneyjar, en Reykjavík er númer 37 á listanum, sem telur 62 hafnarborgir í Evrópu. Skemmtiferðaskip sem liggja við höfn í Barcelona blása t.a.m. út meira en fimm sinnum meira af brennisteinsoxíðum en allir 560 þúsund bílar borgarbúa. Í Danmörku losuðu skemmtiferðaskip 18 sinnum meira af brennisteinsoxíðum árið 2017 en þær 2,5 milljónir bifreiða sem eru í eigu Dana.

Skemmtiferðaskip losa jafnframt nituroxíð, um 15% þess magns sem allur bílafloti Evrópu losar árlega að meðaltali. Díselbílar hafa verið taldir stór orsakavaldur loftmengunar í Evrópu. Skip eru alla jafna ekki búin loftmengunarsíum eins og þó er skylt í bílum og í iðnaði, auk þess sem bruni á svartolíu skipa losar ennþá meira af mengandi efnum út í andrúmsloftið. Talið er að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni nú verða beitt auknum þrýstingi til að herða reglur um loftmengun frá skipum.