Michael Cohen, fyrrv. einkalögfræðingur Donalds Trumps, var dæmdur í þriggja ára fangelsi miðvikudaginn 12. desember. Af því tilefni birti The New York Times þennan leiðara í dag, fimmtudaginn 13. desember:
„Undanfarna mánuði hafa verið nokkrir dimmir dagar í Bandaríkjunum, dagar þegar undrandi borgarar hafa haft tilefni til að velta fyrir sér hvort stofnanir þjóðarinnar og jafnvel hugsjónir hennar – þingið, kosningaferlið og sú skoðun að heiðarleiki skipti máli – séu orðnar of brothættar til að standast það sem gæti virst linnulaus árás.
Miðvikudagurinn [12. desember] var ekki einn þessara daga.
Alríkisdómari í Manhattan dæmdi Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðing Donalds Trumps, í þriggja ára fangelsi fyrir það sem dómarinn lýsti sem „hlaðborði“ afbrota, þar skipti mestu greiðsla þöggunarfjár til tveggja kvenna sem sögðust hafa sofið hjá fyrirverandi húsbónda hans. Með þessum greiðslum tókst Trump að fela þessar frásagnir fyrir kjósendum á lokavikum kosningabaráttunnar. Bandaríski héraðsdómarinn William Pauley sagði að þetta brot á lögum um meðferð kosningafjár skaðaði „lýðræðislegar stofnanir okkar á lævísan hátt“. Þessi niðurstaða hans sýndi að enn leynist lífsneisti í þessum stofnunum.
Trump hefur lýst greiðslunum til þessara tveggja kvenna sem „einfaldri einkatilfærslu“. Saksóknarar sögðu hins vegar afdráttarlaust að um ólögmætar kosningagreiðslur væri að ræða þar sem tilgangur þeirra hefði verið að stuðla að sigri í kosningunum.
Þessi skoðun var áréttuð skömmu eftir að Cohen var dæmdur þegar alríkissaksóknarar upplýstu að í samkomulagi sem útgefandi The National Enquirer hefði gert til að komast hjá saksókn viðurkenndi hann að til þess að vinna að kjöri Trumps sem forseta, og í samvinnu við hann, hefði blaðið greitt 150.000 dollara til annarrar konunnar, Karen McDougal, fyrrverandi Playboy-sýningarstúlku, sem sagðist hafa átt í 10 mánaða sambandi við Trump.
Samsæri um glæp
Saksóknararnir sem höfðu þegar sagt í minnisblaði vegna dóms yfir Cohen að hann hefði „starfað í samræmi við og undir stjórn Einstaklings-1“ – Einstaklingur-1 er forsetinn – telja þetta jafnvel þyngri vitnisburð um að Trump hafi tekið þátt í samsæri um glæp.
Í von um miskunn sagði Cohen dómaranum sorgarsögu um draumóramann, afvegaleiddan af „blindri hollustu við þennan mann sem varð til þess að ég valdi braut myrkurs í stað ljóss“.
„Hvað eftir annað,“ sagði hann um fyrrverandi vinnuveitanda sinn „taldi ég mér skylt að hylja skítverk hans frekar en að hlusta á innri rödd mína og eigin siðvitund.“
Svo að enginn tárist skal tekið fram að Cohen valdi „braut myrkurs“ með illa þokkuðum lögfræðistörfum mörgum árum áður en hann hitti Trump. Saksóknarar hafa fært fyrir því sannfærandi rök að siðvitund Cohens, sem játaði sig einnig sekan um skattsvik og bankasvindl, hafi ekki vaknað fyrr en hann var handtekinn og alríkislögreglan gerði húsleit heima hjá honum, í skrifstofu hans og hótelherbergi.
Fyrstu kynni lofuðu miklu
Cohen var á sínum tíma ekki annað en dæmi um hvers konar fólk Trump vill hafa nálægt sér, hann er hins vegar núna einnig dæmi um hvert sá félagsskapur getur leitt það.
Fyrstu kynni lofuðu miklu. „Hann er mjög klár maður,“ sagði Trump við The New York Post árið 2007 eftir að Cohen hóf að kaupa einingar í byggingum Trumps. Þetta var um svipað leyti, segja saksóknararnir, og Cohen tókst að fá hússtjórn setta af eftir að þeir sem sátu í henni reyndu að fjarlægja nafn Trumps af húsi þar sem hann bjó. Cohen sem hafði um 75.000 dollara í árstekjur á þessum tíma varð brátt einn framkvæmdastjóra og almennur ráðgjafi Trump samsteypunnar með 500.000 dollara árstekjur.
Þetta var áhugaverður tími fyrir Trump og ef til vill einnig fyrir þá sem unnu að rannsókn á Rússatengslunum. Á þessum tíma var svo komið að nánast allir bandarískir bankar fyrir utan þá þar sem dóttir hans sat í stjórn sniðgengu Trump. The Washington Post sagði að næstum öll viðskipti hans eftir þetta hefðu verið í reiðufé. Og um þetta leyti fóru fram fleiri viðskipti við skuggalega Rússa, Donald Trump yngri sagði: peningar „streymdu inn frá Rússlandi“.
Falið að nálgast Pútín
Árið 2015 þegar Trump bjó sig undir forsetakosningar fól hann Cohen að kanna hvort Vladimir Pútín Rússlandsforseti gæti veitt aðstoð við að koma á samningi um fasteign í Moskvu sem gæti gefið af sér hundruð milljónir dollara að sögn starfsmanna sérstaks saksóknara.
Í forsetakosningabaráttunni lét Cohen ekki deigan síga og sýndi húsbónda sínum að hann væri harður í horn að taka í sjónvarpi og gagnvart fjölmiðlum.
Þegar fjölmiðlamenn spurðu hann um margra ára gamla fullyrðingu fyrstu eiginkonu Trumps þess efnis að Trump hefði reynt að nauðga henni varaði hann þá við að hætti glæpona. Farið varlega, sagði Cohen „vegna þess að það sem ég ætla að gera við ykkur verður … ógeðslegt“.
Svo hrundi þetta allt áður en Cohen fékk að fullu notið kosningasigurs húsbónda síns.
Cohen átti einnig undir högg að sækja vegna lyganna sem hann bar á borð fyrir þingmenn um aðild sína að Moskvu-viðskiptunum, hann játaði sig seka um þær og var á miðvikudaginn dæmdur í tveggja mánaða fangelsi vegna þeirra samhliða refsingu fyrir hin afbrotin.
Hann hefur unnið náið með Robert Mueller, sérstaka saksóknaranum. Bandaríska réttvísin hefur vísað Michael Cohen að nýju inn á ljóssins braut og það var ánægjulegt á miðvikudaginn að verða vitni að þrautseigju réttvísinnar og verða minnt á tignarveldi hennar.“
Af vefsíðu Varðbergs, vardberg.is – birt með leyfi.