Skortur á lýðræðislegri aðkomu og „afarkostir“ EES samstarfsins

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Mynd/HÍ

Íslandi eru settir afarkostir í EES-samstarfinu og skortur er á lýðræðislegri aðkomu við innleiðingu ESB löggjafar á Íslandi.

Um þetta ritar Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor, í nóvemberskýrslu TEPSA (Trans European Policy Studies Association), þar sem hann greinir stoðir EES samstarfsins og möguleika Íslands á því að hafa áhrif á ESB löggjöf sem Íslandi sé skylt að innleiða skv. EES samningnum.

Hann segir m.a. í skýrslunni að oft sé horft framhjá áhrifaleysi EES/EFTA landanna innan ákvörðunarkerfis ESB, í heildarmati á EES samningnum.

Alþingi í raun fjarverandi við lagasetningu frá ESB

„Þingmönnum er sjaldan kunnugt um komandi löggjöf og verða hennar oft ekki varir fyrr en eftir samþykki stofnana ESB. Einstaka umræður eiga sér stað um framkvæmd og undanþágur frá ströngu innleiðingarferlinu, en Alþingi hefur aldrei hafnað innleiðingu ESB löggjafar inn í EES samninginn. Alþingi er í grundvallaratriðum fjarverandi við ákvarðanatöku skv. EES samningnum, og „stimplar einfaldlega“ ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar um gildistöku löggjafar ESB. Oftast innleiða ráðuneyti EES-gerðir án virkrar þátttöku ráðherra eða þingmanna.“

Viljinn þýddi jafnframt samantekt hans úr skýrslunni:

„Það er breið samstaða meðal stjórnmálamanna, aðila vinnumarkaðarins og annarra á Íslandi um Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Hugmyndin um gagnsemi hans fyrir Ísland er útbreidd.

Engu að síður gagnrýna nýir popúlistaflokkar í auknum mæli innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í gegnum EES-samstarfið, svo sem þriðja orkupakka ESB, og þessi gagnrýni höfðar til hluta kjósenda.

Uppbygging EES-samningsins gefur Íslandi takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á EES-löggjöf. Ísland getur tekið þátt í mótun tillagna innan
framkvæmdastjórnar og stofnana ESB, en getan til að breyta löggjöf ESB innan EES stoðarinnar er að öðru leyti takmörkuð. ESB stýrir löggjöf sinni til sameiginlegu EES-stofnananna, og hlutverk Íslands, sem og hlutverk þess í EFTA-stoðinni, er einnig takmarkað af stofnanaskipan samningsins.

Íslandi sé skylt að framkvæma ákvarðanir ESB vegna afarkosta um aðild

Ísland getur hafnað því að taka upp ESB löggjöf í gegnum EES samstarfið. Synjun myndi þó beinlínis skora á aðild Íslands að samningnum. Þetta skipulag gefur ekki mikið svigrúm, og væri hægt að lýsa því sem „afarkosti“. Ísland er í reynd (l. de facto) skylt að hrinda í framkvæmd ákvörðunum ESB.

Ennfremur útilokar umgjörð ákvarðanatöku EES að mestu leyti kjörna
fulltrúa, þingmenn og ráðherrar á Íslandi frá eðlilegri ákvarðanatöku. Einnig er kjörnum fulltrúum veitt takmarkað hlutverk í daglegri meðferð EES gerða á Íslandi. Það eru íslenskir embættismenn sem meðhöndla EES gerðir hjá framkvæmdastjórn ESB, innan ákvarðandi stofnana EES/EFTA og ráðuneyta á Íslandi, án þátttöku kjörinna fulltrúa.

Íslendingar kynnu að samþykkja ESB/EES löggjöf að mestu, þar sem almennt er litið svo á að EES samstarfið þjóni íslenskum hagsmunum.
Íslensk stjórnmál hafa þó undanfarið orðið að efla viðleitni sína við að réttlæta framkvæmd EES/ESB gerða til þess að nýir popúlistaflokkar taki ekki yfir umræðuna og skori á EES aðild Íslands.“

Farið er yfir það í skýrslunni hver lýðræðisleg aðkoma Íslands er, í uppsetningu tveggja stoða fyrirkomulags samningsins.

Tveggja stoða kerfi EES samstarfsins. Skjáskot/EFTA

Evrópuráðið leggur til nýja löggjöf og kynnir hana íslenskum sérfræðingum og embættismönnum sem hafa aðgang að sérfræðingum og nefndum þess. Þeir geta sent inn athugasemdir, en Ísland fær ekki að kjósa um tillögurnar og á ekki sæti í ráðinu.

Ráðherraráð ESB Ísland á ekki formlegan aðgang að því, en getur reynt að fá upplýsingar og hafa áhrif (e. lobby) þangað inn í meiriháttar málum, með stuðningi hinna Norðurlandanna.

Evrópuþingið hvorki Ísland né hin EES/EFTA ríkin eiga sæti í því, en geta mögulega reynt að hafa áhrif (e. lobby). Vald þingsins hefur aukist mikið frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið varð til árið 1990.

Evrópuráðið Ísland og hin EES/EFTA ríkin hafa þar engin áhrif, en ráðið hefur mikið að segja um þróun EES samstarfsins.

EFTA stoðin sér til þess að EES/EFTA ríkin hafi eina sameiginlega rödd gagnvart ESB.

Fundur EFTA ríkjanna hefur það hlutverk að komast að sameiginlegri niðurstöðu fyrir fundi í Sameiginlegu EES nefndinni. Um talsverðan þrýsting getur orðið að ræða fyrir einstök ríki að fallast á skoðun meirihlutans á fundinum.

Eftirlitsstofnun EFTA vinnur náið með ESB nefndinni og sér til þess að farið sé eftir EES samningnum.

EFTA dómstóllinn leysir úr ágreiningsefnum á grundvelli EES samstarfsins og veitir dómstólum innan landanna ráðgjöf.

EES ráðið (leiðtogaráðið) tekur ákvarðanir um mótun EES samstarfsins og leysir úr ágreiningi. Þar eiga sæti utanríkisráðherrar aðildarríkjanna og aðilar úr Evrópuráðinu og Evrópunefndinni. Hún fundar aðeins tvisvar á ári vegna áhugaleysis ESB á störfum hennar, að því er segir í skýrslu Baldurs.

Sameiginlega EES nefndin hefur mesta ákvörðunarvaldið í EES samstarfinu og er ábyrgt fyrir innleiðingu ESB löggjafar inn í EES samninginn. Hún samanstendur af fulltrúum EES/EFTA landanna ásamt fulltrúum Evrópunefndarinnar. Nefndin fylgir oftast ráðleggingum Evrópunefndarinnar um innleiðingu ESB löggjafar. EES/EFTA löndin verða að komast að sameiginlegri niðurstöðu í nefndinni, sem takmarkar getu einstakra ríkja til að hafna eða breyta einstökum atriðum.

Sameiginlega EES þingmannanefndin samanstendur af þingmönnum ríkjanna og gegnir ráðgjafarhlutverki. Hún er nefnd til sögunnar sem áhrifalaus „kjaftaklúbbur“ í skýrslunni.

Ráðgjafanefnd EES gegnir einnig ráðgjafarhlutverki í sameiginlegum efnahagslegum og félagslegum málefnum samstarfsins.