Ekki fer á milli mála að margir vinstra megin við miðju telja sig nú hafa himinn höndum tekið með Samherjamálinu og ætla að nota það mál, og geðshræringuna kringum það, til að þvinga í gegn nýja stjórnarskrá, umbylta stjórnkerfi fiskveiða og koma Sjálfstæðisflokknum fyrir kattarnef.
Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á öllu saman er leiðarljós í hverjum þætti Ríkisútvarpsins á eftir öðrum, nú síðast með algjörlega óboðlegri framgöngu Atla Þórs Fanndal, forsprakka hinnar nafnlausu níðssíðu Jæja-hópsins á fésbókinni, í Silfrinu í morgun.
Kommúnistaávarp í boði Stjórnarskrárfélagsins
Sömuleiðis er skýr krafa að Kristján Þór Júlíusson segi af sér sem sjávarútvegsráðherra — af því bara, hann er jú víst sekur og spilltur — og tækifærið er notað til að básúna kommúnistaávörpum á Austurvelli þar sem orðin alræði, auðvald og öreigar komu fyrir í annarri hverri setningu.
Nýleg skoðanakönnun sýnir að meginþorri landsmanna telur ekki brýna þörf á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er þess vegna sem svonefnt Stjórnarskrárfélag notar hvert upphlaupið í samfélaginu á fætur öðru til að freista þess að knýja fram á henni breytingar.
Brynjar Níelsson þingmaður benti á það á fésbók í gær, að litlar heimtur hafi hingað til orðið úr þeim hneykslismálum sem RÚV hafi gert hvað mest úr undanfarin ár. Enn er meirihluti landsmanna sem betur fer á því, að betur fari á því að láta ákæruvaldið og dómstóla um að leiða mál til lykta, en ekki dómstólinn í Efstaleitinu. Þar á bæ brjóta menn ítrekað lög og finnst ekkert að því, en dæma svo aðra án dóms og laga í hverri viku.