„Þessi niðurfelling á skuldum hjá einum af ríkustu mönnum Íslands myndi duga til að hækka laun allra á hinum almenna vinnumarkaði um 3,4%!“ segir Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ, á fésbókarsíðu sinni í dag.
Tilefnið eru fréttir sem Stundin birtir í nýútkomnu tölublaði sínu um gríðarlega skuldaniðurfellingar sem fjárfestirinn Róbert Wessman samdi um við Glitni í árslok 2013 og ekki hefur verið fjallað um opinberlega fyrr.
DV gerði málið einnig að umtalsefni með frétt um helgina. Sjá: Einn ríkasti maður Íslands fékk felldar niður skuldir upp á 33,7 milljarða
Í grein Stundarinnar kemur fram að til þess að losna við ábyrgðirnar og til að gera upp skuldir, sem um mitt ár 2009 námu samtals um 45 milljörðum króna, greiddi Róbert tæplega 1.300 milljónir króna til Glitnis í reiðufé. Róbert var meðal annars í 98 prósenta sjálfskuldarábyrgð fyrir 5,3 milljarða króna láni sem Glitnir veitti félagi hans, Salt Financials, til að kaupa hlutabréf í Glitni þann 18. september árið 2008, nokkrum dögum fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á bankanum.
Endurgreiðslur námu ríflega þremur prósentum
Í samningnum sem gerður var vegna málsins, eru skuldir og persónulegar ábyrgðir eins nánasta samstarfsmanns Róberts Wessmann, skattalögfræðingsins Árna Harðarsonar, einnig undir en hann var meðal annars í sjálfskuldarábyrgðum fyrir tveimur prósentum af 5,3 milljarða króna skuld við Glitni út af hlutabréfakaupum í bankanum í september árið 2008. Bara sú ábyrgð Árna nam meira en 100 milljónum króna.
Endurgreiðslur Róberts í skuldauppgjöri félaga hans og Árna Harðarsonar við Glitni nam því samtals rúmlega þremur prósentum, nánar tiltekið 3,25 prósentum, miðað við skuldastöðu félaga Róberts við Glitni um ári eftir bankahrunið árið 2009. Róbert greiddi rúmlega 3 prósent, tæplega 1.300 milljónir króna, af rúmlega 40 milljarða króna skuldum sem voru útistandandi við bankann árið 2009; skuldum sem hann var að stóru leyti í persónulegum ábyrgðum fyrir.
Eftirstöðvarnar af kröfum Glitnis á hendur félögum Róberts og honum sjálfum virðast hafa verið felldar niður.