Skuldasöfnun Reykjavíkurborgar langt umfram afrakstur

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. / Skjáskot af Hringbraut.

„Áætlun út kjörtímabilið liggur nú fyrir og er ljóst að þessi mikla skuldasöfnun er langt umfram það sem reksturinn gefur af sér. Gæfulegra væri fyrir meirihlutann að hlusta á viðvörunarorð og tillögur þeirra sem sitja í minnihluta, frekar en að horfast ekki í augu við vaxandi undirliggjandi rekstrarvanda,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og fimm ára áætlun 2020-2024 var samþykkt með 12 atkvæðum meirihlutans. Eyþór segir að áætlunin sýni að skuldir hækki stöðugt þvert á það sem standi í meirihlutasáttmálanum, þar sem segir að skuldir skuli greiddar niður á meðan efnahagsástandið sé gott.  

Eyþór bendir á í þessu samhengi, að áætlunin geri ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar muni hækka verulega frá þeirri áætlun sem gerð var fyrir kosningarnar 2018. Er nú gert ráð fyrir að skuldir verði heilum 64 milljörðum hærri árið 2022.

Áætlunin sé „skipbrot meirihlutasáttmálans“

„Sjálfstæðismenn lögðu fram fjölda breytingartillagna við fjárhagsáætlun fyrir þennan fund. Lagðar voru til skattalækkanir og hagræðing í stjórnkerfinu, auknir afslættir fasteignagjalda fyrir eldri borgara og öryrkja, sala eigna í samkeppnisrekstri og bætt jafnræði rekstraraðila í skólakerfinu. Þeim var öllum hafnað,“ sagði Eyþór í borgarstjórn þegar hann las upp bókun við málið og bætti við:

„Sú fjárhagsáætlun sem samþykkt hefur verið á þessum fundi er í raun skipbrot meirihlutasáttmálans sem gerður var eftir síðustu kosningar. Engin hagræðing er enda hækkar rekstrarkostnaður um 16% á aðeins tveimur árum. Skuldir vaxa hratt og verða 64 milljörðum hærri í lok kjörtímabils en fram kom í fimm ára fjárhagsáætlun sem lögð var fram fyrir kosningar.“