Skúli leggur allt undir til að bjarga Wow: Veðsetti heimilið og Hvammsvíkina

Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi Wow air, hefur lagt allt undir persónulega til þess að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Arion banki, viðskiptabanki flugfélagsins, hefur þinglýst tveimur tryggingabréfum á eignir í beinni eigu Skúla eða félaga hans og virðist þar komið fjármagnið sem hann kom með í skuldabréfaútboði félagsins í september sl.

Frá þessu er greint í Stundinni í dag. Öðru tryggingabréfinu var bæði þinglýst á eignir sem tengjast rekstri WOW air með óbeinum hætti, á hótel á Suðurnesjum sem félagið TF-KEF ehf. á, og eins á fasteignir í Hvammsvík í Hvalfirði sem Skúli Mogensen á í gegnum félagið Kotasælu ehf. Tryggingabréfið á hótelinu á Suðurnesjum er á þriðja veðrétti á eftir tveimur tryggingabréfum frá Arion upp á samtals 650 milljónir króna sem hvíla á fyrsta og öðrum veðrétti á því.

Arion banki þinglýsti einnig nýju tryggingabréfi upp á 2,77 milljónir evra, 358 milljónir króna, á heimili Skúla á Seltjarnarnesi sama dag. Engin veðbönd hvíldu á húsinu fyrir þetta, að því er fram kemur í Stundinni.

Samtals er því um að ræða tæplega 5,7 millljónir evra, 733 milljónir króna, á tveimur tryggingabréfum sem Arion banki þinglýsti á fasteignir tengdar Skúla í september.

Á þessum tíma sem tryggingarbréfin voru gefin út, stóð WOW air í skuldabréfaútboði til að reyna að tryggja áframhaldandi rekstur flugfélagsins. Skuldabréfaútboðinu lauk þremur dögum áður en Skúli Mogensen undirritaði tryggingabréfin á fasteignunum.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að Skúli hafi sjálfur fjárfest í skuldabréfaútboðinu fyrir 770 milljónir króna.

Sjá frétt Stundarinnar.