Starfsmannafundur stendur nú yfir í höfuðstöðvum Wow air við Höfðatorg í Reykjavík, en fyrir um klukkustund var tilkynnt að hætt hafi verið við kaup Icelandair á öllu hlutafé í Wow.
Um mánuður er síðan óvænt var tilkynnt um samrunann, sem gerður var með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, hluthafafundar Icelandair og niðurstöður áreiðanleikakönnunar. Í morgun var svo tilkynnt til Kauphallarinnar, að ekkert yrði af samrunanum.
Viljinn hefur heimildir fyrir því að fjölmörgum spurningum hafi enn verið ósvarað þegar kemur að áreiðanleikakönnuninni og breytum sem þurftu að liggja fyrir um skuldir félagsins sem þyrfti að yfirtaka. Þá er og ljóst að neikvæð umræða um Wow undanfarna daga, vikur og mánuði hefur eðli málsins samkvæmt bitnað mjög á miðasölu og þar með lausafjárstöðu fyrirtækisins. Starfsfólki var þó heitið því í gær að fá laun sín greidd á morgun.
Skúli sendi starfsfólki sínu bréf í morgun á innra vef fyrirtækisins, þar sem hann segir stefnuna enn að reka Wow sem sjálfstætt félag. Hann lætur engan bilbug á sér finna og boðar gleðifréttir í náinni framtíð, eins og hann orðar það.
Uppfært: Á starfsmannafundinum skýrði Skúli frá því að fjársterkur og þekktur aðili skoði nú kaup á flugfélaginu. Þau mál skýrist í næstu viku.