„Við höfum verið að fylgjast með skyndihlýnuninni uppi í heiðhvolfinu. Spálíkön höndla vægast sagt illa hvernig eða hvort yfir höfuð hlýnunin í 20-30 km hæð berst niður til yfirborðs,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á veðursíðu sinni, en eins og fram hefur komið hér á Viljanum, er rækilega fylgst með því hvort hlýnunin í heiðhvolfinu nú getur valdið miklu kuldakasti á meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum á næstu vikum.
Einar segir að spáin fram á miðvikudag, 9. janúar, sé sæmilega eindregin en um það leyti ætti áhrifanna að fara að gæta. Ögurstund geti orðið á miðvikudag. Hann bendir á spákortið hér að ofan, sem er frá Bandarísku veðurstofunni og vekur sérstaka athygli á því sem er innan rauða hringsins.
Gefum Einari orðið:
„1. Takið eftir hæðinni í Íshafinu og þar í kring áberandi hlýrra svæði. Þó loftþrýstingurinn sé við yfirborð eiga litirnir við stöðu mála uppi í um 5 km hæð. Þessa hæð nærri Norðurpólnum má með góðum vilja túlka sem áhrif ofan úr heiðhvolfinu.
2. Nái hún meira umfangi ryður hún helstu kuldasvæðum frá pólnum. Ekki síst þessu við ströndina yfir N-Rússlandi og inn yfir meginlandið.
3. Fyrirstöðuhæð er suðaustan við Ísland, enda spáð hlýju lofti sunnan úr höfum að nýju eftir þrettándann. Sumir reikningar gera ráð fyrir því að þessi hæð mjakist til norðvesturs vestur fyrir Grænland og eflist enn frekar.
4. Um leið og kuldinn fer norður frá klofnar hluti suður yfir Kanada, en partur fer yfir Svalbarða með stefnu á N-Skandinavíu. Slíkt sést stundum í kjölfar skyndihlýnunar og þá með vetrarkuldum í framhaldinu í Evrópu allt suður til Miðjarðarhafs. Athugið þó að strax þ. 9 verður skv. spákortinu þegar orðið allkalt allt suður og vestur um Frakkland.
5. Annar möguleiki og hann hefur þótt líklegri en það sem á undan er rakið. Lægð rétt utan hringsins suður af Hvarfi gæti vaxið og með stefnu vestan við Íslands. Í stað víxlverkunar til vesturs berst þá hæðin í austur átt og koðnar þar niður. Við tekur vestlægt loft og að mestu ótrufluð hringrás með V-vindum hér næstu dagana á eftir.“
Einar segir ekki gott að segja hversu skal trúa í þessum efnum. Nokkuð sé vitnað til vísindagreinar frá 2017, þar sem niðurstaðan var sú að skyndihlýnun í heiðhvolfi bærist ekki niður í um 43% tilvika.
Sjá t.d. skrif Simon Lee hér: https://simonleewx.com/…/27/not-all-ssws-were-created-equal/
„Á móti mæla sumir að veðurlíkön hafi illa ráðið við aflfræði þessa og að nú sé hlýnunin með allra mesta móti og nær útilokað sé annað en að hún hafi þekkt áhrif á jörðu niðri með neikvæðum AO-vísi og vetrarkulda austanhafs og vestan.“