„Skýrslan leggur nýjan grunn að umræðu um EES-samstarfið“

Björn Bjarnason. Ljósmynd Viljans/Erna Ýr Öldudóttir

„Þegar við ræðum aðild að sameiginlegum markaði, þá getum við ekki einungis rætt viðskipti, heldur einnig frjálsa för fólks og ýmis réttindi. Til að mynda hafa 40 þúsund Íslendingar nýtt sér Erasmus-styrki til náms og 140 þúsund manns hafa nýtt sér samevrópska sjúkratryggingakortið“, sagði Björn Bjarnason, formaður starfshóps um EES-samstarfið á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu, en skýrsla hópsins kom út í dag.

Björn sagði m.a. að ekki sé hægt að miða umræðuna um samninginn í heild sinni við ýmislegar lögfræðlegar deilur um hin og þessi atriði.

Guðlaugur Þór Þórðarsson veitti skýrslunni viðtöku, en hann sagði að „Íslendingar væru sinnar eigin gæfu smiðir“ í EES-samstarfinu og vonaðist til að skýrslan gæti hjálpað til þess að svo yrði áfram.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

Kristrún Heimisdóttir, sem einnig skipaði starfshópinn, kvað skýrsluna „leggja nýjan grunn að umræðu um EES-samstarfið“, og kvað „ekkert dregið undan í skýrslunni“, sem er ítarleg og 300 blaðsíðna löng, með lista yfir 147 viðmælendur, og í henni eru álit unnin af forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

Kristrún Heimisdóttir ræddi við blaðamenn. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

Björn sagði að á þeim 25 árum síðan Ísland gerðist aðili að EES-samstarfinu, hafi verið unnin 18 álit um stjórnskipunarlegt réttmæti samningsins og ávallt hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn brjóti ekki gegn stjórnarskrá. Tími sé kominn til að binda enda á þrætuna, eða gera breytingar á stjórnarskrá sem heimila samninginn. Spurningin um hvort sú þróun innan ESB um að koma á laggirnar sérstofnunum falli að stjórnarskrá, sagði Björn: „Með þessum stofnunum er Íslendingum skapaður nýr réttur, en mælt er fyrir um að við getum átt sæti í sérfræðinefndum og að það sé misskilningur að með fagstofnunum sé verið að sauma að fullveldinu.

„Fullveldisrétturinn er mikilvægur og hann ber að virða, Icesave málið sýndi að fullveldisákvarðanir eru virtar þegar á reynir“, sagði Björn jafnframt og að meta þurfi að jöfnu ávinninginn sem hefur fengist í samstarfinu. Ítarlegt yfirlit sé í skýrslunni yfir sögu Orkupakkans og einnig Icesave-málið, sem var leyst á vettvangi EES-samstarfsins. „Aðild okkar að EES varð til þess að það mál leystist á þann veg sem það gerði“.