Skýrt afmarkað framsal sem heimild sé fyrir að gera

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Þetta er skýrt af­markað framsal sem við höf­um heim­ild til þess að gera,“ var á meðal þess sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra sagði á opnum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag, þegar orkupakki 3 kom þar til tals.

Húsfyllir var á fundinum, en Bjarni hélt ræðu þar sem hann fór yfir stöðu mála, þann árangur sem náðst hefur, áskoranir í samstarfi þriggja flokka og þær hröðu breytingar sem hafa orðið í stjórnmálunum á stuttum tíma.

Hann sagði að á skömmum tíma hafi myndast margir smáflokkar, hérlendis og erlendis, og að nú standi menn frammi fyrir því að þurfa að mynda ríkisstjórnir með fleiri flokkum en áður, sem kosti enn frekari málamiðlanir til þess að hægt sé að starfa saman. Nú síðast hafi ekki verið hægt að mynda nema þriggja flokka ríkisstjórn. Því sé stundum óraunhæft að ná fram ítrustu kröfum, en sá árangur sem náðst hafi, byggi á sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins.

Skoðanakannanir yfirskyggi ekki árangur

Hann sagði að menn skyldu ekki láta skoðanakannanir trufla sig eða yfirskyggja þann raunverulega árangur sem hafi náðst, eins og til dæmis lífskjarasamningana sem gerðir voru við verkalýðshreyfinguna í vor, en við lausn þess máls hafi verið kostur að vera í samstarfi við vinstri flokk. Einnig hafi skattar verið lækkaðir, dregið úr neyslustýringu, gjaldeyrishöftin verið afnumin, staða ríkissjóðs batnað mjög og að ríkissjóður njóti nú bestu mögulegu lánskjara. Ráðstöfunartekjur hafi vaxið hjá öllum aldurshópum frá árunum 2013-2018, minnst um 18% en mest hjá eldri borgurum, um 32-34%.

Bekkurinn var þétt skipaður á fundinum og fullt út úr dyrum.

Margir fundargestir voru spenntir að fá að vita meira hvað þingflokkurinn hefði að segja um orkupakkamálið og Bjarni eyddi löngum tíma á fundinum í að ræða það. Þar kom fram að þegar hann vann í nefndum utanríkisráðuneytisins, hafi verið unnin skýrsla þar sem farið var yfir EES samstarfið og hvernig reglur séu innleiddar. Hún hafi komið út í október 2008, og gaf hann í skyn að þannig hafi hún e.t.v. ekki hlotið þá athygli sem skyldi.

Hann hafi í framhaldinu reynt að standa fyrir breyttum vinnubrögðum, þannig að mál sem koma til Íslands í gegnum EES samninginn hljóti meiri þinglega umræðu og meðferð en áður, og að það hafi verið gert á sínum tíma í orkupakkamálinu, áður en það fór fyrir sameiginlegu EES nefndina til samþykktar þar.

Sigmundur Davíð gagnrýndur fyrir viðsnúning í málinu

Hann gagnrýndi málflutning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins nú, og kvað Alþingi ít­rekað hafa fengið send minn­is­blöð frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu á árunum 2014 til 2016 þegar Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Miðflokks­ins, gegndi embætti ut­an­rík­is­herra og Sigmundur Davíð var forsætisráðherra. Þau minnisblöð hafi verið þess efn­is að inn­leiðing orkupakk­ans brytu ekki gegn stjórnarskránni.

Bjarni vildi alls ekki gera lítið úr áhyggjum fólks af orkupakkamálinu og sagði að hlustað væri á þær. Hann sagði að ekki væri áhugi fyrir því að veikja samkeppnisstöðu Íslands með hækkun á raforkuverði né því að Landsvirkjun færi úr eigu ríkissjóðs. Orkupakkinn tryggði fyrst og fremst sjálfstætt eftirlit Orkustofnunar og neytendavernd. Engin áform séu um að leggja sæstrengi eins og er og slíkar ákvarðanir verði alfarið í höndum íslenskra stjórnvalda. Þingflokkurinn stæði við orkupakkamálið, sem hann byggist við að hlyti stuðning til samþykktar í haust. Hann lagði áherslu á að raforka á Íslandi sé fyrst og fremst til notkunar innanlands, og lýsti yfir áhuga á því að tryggja flutning á raforku á jöfnu verði til allra landsmanna.

Smá kaffispjall í lok fundarins.