Smásaga vikunnar: Svik eftir Ágúst Borgþór Sverrisson

Smásaga vikunnar birtist í vikulok hér á Viljanum. Viltu koma góðri smásögu á framfæri? Hafðu samband og hver veit hvort þín smásaga á erindi við lesendur.

I.

Þegar ég var fertugur var sonur minn fimm ára. Á hverjum sunnudagsmorgni fórum við í fótbolta á sparkvelli í hverfinu. En þennan morgun hafði hópur manna á aldur við mig lagt undir sig völlinn. Ég undraðist hvað þeir voru sprækir, að gera þetta klukkan hálfellefu á sunnudagsmorgni. Flestir voru klæddir í gamlar og upplitaðar treyjur merktar erlendum félagsliðum. Leikurinn var hægur og ómarkviss. Ég velti því fyrir mér hvort það liti svona illa út þegar ég var sjálfur í bolta með félögunum.

Ég ók um borgina í leit að sparkvelli. Næstu tveir vellir sem við fundum voru líka uppteknir, þar voru börn að leik. Ég reyndi að rifja upp hvar sparkvellir væru staðsettir. Sonur minn var með andlitið límt á rúðuna í leit að völlum. Allt í einu vorum við staddir í gamla æskuhverfinu mínu, í hinum enda borgarinnar. Og þar fundum við sparkvöll og lékum okkur góða stund.

Umhverfið var nánast óþekkjanlegt frá því ég bjó í hverfinu á áttunda áratugnum, þegar hér voru tún, mýrlendi, melar og holt; og hús á stangli sem báru sérnöfn eins og sveitabæir: Grænamýri, Fagurhóll, Grund, Hvammur. Núna var búið að malbika og steypa yfir þetta allt og byggja blokkir, raðhús og verslunarmiðstöð. Flest gömlu húsanna voru horfin. Húsið sem ég bjó í hét Efra-Fell. Það stóð enn. Á meðan við lékum okkur þarna vöknuðu sofandi minningar í hugskotinu, um að elta bolta á bungótta grasvellinum sem hafði verið skammt frá og opna Mackintosh-dós með nokkrum tindátum og Matchboxbílum. Þegar við vorum búnir að leika okkur nóg gekk ég að gamla æskuhúsinu, yfir planið, framhjá bílnum okkar, eins og í leiðslu. „Hvert ertu að fara pabbi?“spurði strákurinn og elti mig.

Málningin var flögnuð af veggjunum. Bárujárnið á þakinu var ryðgað. Rautt þak, hvítir veggir – alveg eins og í gamla daga. Ekki mundi ég í svipinn hvernig gardínurnar höfðu litið út  en núna var nákvæmlega ekkert fyrir gluggunum. Ég færði mig upp að gamla herbergisglugganum mínum. Það var ekkert að sjá inn um hann nema spýtnahrúgu á gólfinu, eins og einhver hefði horfið frá hálfkláruðu verki.

Þetta var eyðibýli.

„Hver á heima hérna?“ spurði drengurinn fyrir aftan mig? „Erum við að fara í heimsókn?“ Mér varð starsýnt á ljósgræna boltann hans sem hann hafði lagt frá sér í óslegið grasið. Í þessum sama litla garði hafði ég leikið mér með bolta þegar ég var lítill. Í minningunni var garðurinn stærri.

„Erum við að koma í heimsókn hingað?“ Drengurinn ítrekaði spurninguna.

„Nei, það á enginn heima hérna,“ svaraði ég.

Hann horfði á húsið eitt augnablik en missti síðan áhugann og sagði: „Pabbi,mig langar í ís.“

2.

Á heimleiðinni birtist dökkblár gólfdúkur í hugskotinu. Þar hafði ég oft legið flötum beinum með fábreytt leikföng. Ég hafði ekki hugsað um þennan gólfdúk í áratugi, var fyrir löngu búinn að gleyma honum, en núna skaut honum skyndilega aftur upp í hugann, jafnraunverulegum og fyrir áratugum. Lyktin líka. Hann lyktaði af tómleika og leiðindum. Ófullnægju.

Ég var alinn upp af góðu fólki. Að minnsta kosti ekki slæmu. Ég meina, pabbi barði okkur ekki með beltinu sínu. Beltið hans var reyndar gamalt og trosnað og einu sinni slitnaði það. Þá hló pabbi. Hann hló sjaldan en þegar hann stóð allt í einu með annan endann á beltinu í hendinni á miðju stofugólfinu eftir að hafa ætlað að gyrða köflótta skyrtuna ofan í víðar buxurnar, þá gat hann ekki annað en hlegið. Mamma og systur mínar hlógu líka og ég hló með þó að mér þætti þetta ekki sérlega fyndið; maður lofaði hverja ánægjustund því þær voru ekki margar, þó að ekkert sérstakt amaði að á þessu heimili var lífið jafnan tekið alvarlega og sjaldan hlegið. En mér var ekki hlátur í hug þegar ég sá pabba á strætóstoppistöðunni næsta dag með snæri reyrt um sig miðjan. Ég var á tólfta árinu. Vinir mínir sáu hann svona. Hann tímdi ekki að kaupa nýtt belti og gekk vikum saman með bölvað snærið áður en honum einhvers staðar áskotnaðist notað buxnabelti.

Við áttum ekki bíl og við fórum aldrei til útlanda. Löngum stundum lá ég slefandi yfir vörubæklingunum frá Leikfangahúsinu og lét mig dreyma um leikföng sem ég vissi að ég myndi aldrei eignast. Ég bað um rafmagnsbílabraut í jólagjöf en þau sögðu að hún væri of dýr og gáfu mér gula plastbílabraut sem varð fljótt leiðigjörn. Það var engin óregla á heimilinu, öðru nær, foreldrar mínir voru samviskusamt og harðduglegt fólk, en það var eitthvert peningavesen í fjölskyldu föður míns sem bitnaði á okkur, hann hafði skrifað undir víxla sem höfðu gjaldfallið, eða eitthvað þess háttar.

Mér var innprentað í æsku að láta mér nægja það sem ég hefði og vera þakklátur fyrir það. Mér var bent á hungursneyð í fjarlægum löndum og þá staðreynd að sjálfur hefði ég aldrei misst úr máltíð. Boðskapurinn náði til mín en jafnframt dafnaði í mér mótþrói gegn þessu lífsviðhorfi og sannfæring um að lífið hefði upp á meira að bjóða. Þannig tókust á í mér andstæðar hvatir: nægjusemi og ófullnægja. Í nægjuseminni var ég tómur og leiður, í ófullnægjunni friðlaus.

Þannig líður mér oft enn þann dag í dag.

3..

Að sjálfsögðu fékk sonur minn ís eftir fótboltann. Ég lét engri löngun hans ósvalað. Ég hafði einstaka nautn af því að segja já þegar hann benti á eitthvað og spurði hvort hann mætti fá það. Ekki síst ef vísifingur hans staðnæmdist við mynd í vörubæklingum sem komu í pósti eða fylgdu Fréttablaðinu. Stundum keypti ég strax eitthvað handa honum sem hann hélt að hann fengi ekki fyrr en á afmælinu sínu. Móður hans þótti oft nóg um þetta örlæti sem hún kallaði bruðl og dekur, en hún gat ekki stöðvað mig. Ég vildi ekki að hann upplifði þennan sama tómleika og hafði gegnsýrt mína æsku: að langa stöðugt í eitthvað sem maður veit að maður eignast ekki.

Því miður minnkaði þakklæti hans með aldrinum. Smám saman þótti honum sjálfsagt að fá allt sem hann vildi.

4.

Þetta virðist góður dagur þar sem ég naut samveru með ungum syni mínum, litaður ljúfsárri depurð æskuminninga sem rifjuðust upp. Þetta virðist dagur sakleysis og hreinnar samvisku.

Sannleikurinn er hins vegar sá að ég var í öngum mínum vegna þess að ég var bálskotinn í stelpu í vinnunni. Ég var verslunarstjóri í stórri raftækjaverslun og einu sinni þegar ég átti erindi í bókhaldsdeildina sá ég hana taka hárið sitt saman í tagl og festa með spennu. Hún sneri baki í mig. Hún var með mjúkt andlit, gullfalleg en dálítið búttuð. Hún sneri sér við, mætti augum mínum og brosti feimnislega en þó ekki laus við lokkandi augnaráð. Tilfinningin þegar ég hafði hitt konuna mína í fyrsta skipti tuttugu árum áður rifjaðist upp. Sæluhrollur fór um mig.

Þegar maður er fertugur saknar maður þess að vera tvítugur. Þegar maður verður fimmtugur þá vill maður umfram allt fá eitthvað út úr lífinu áður en maður verður gamalmenni. Þegar ég varð fimmtugur fór ég að líta á kynlífsleysi sem það vandamál sem það er – kynlífsleysi. Um fertugt blandaði ég hins vegar í málið rómantískri ástarþrá. Þegar ég reyndi að kyssa konuna mína á munninn vék hún sér undan svo kossinn lenti á vanganum. Ef mér tókst að hremma munnholdið með tungunni kyssti hún ástríðulaust á móti og beið eftir því að losna. Ég andstuttur af þrá, hún þurr og ósnortin. Ef ég kvartaði sagði hún mér að þroskast. Lífið snerist um fleira en þetta. Þegar við vorum ung höfðum við deilt ástríðunni, verið jafnhungruð hvort í annað. Núna höfðum við samfarir á um það bil tveggja vikna fresti og ég skynjaði að líklega væri konunni minni sama þó að við slepptum því alveg. Ég leit ennþá út eins og ungur maður og hjartað ólgaði í mér sem í ungum manni. Ég syrgði ástina líkt og látinn ættingja. Það kom fyrir að ég táraðist yfir þessu í einrúmi og skammaðist mín fyrir það enda ekki karlmannlegt. Konan mín vildi alveg jafnmikið vera gift mér eins og áður. Hún sóttist alveg jafnmikið eftir félagsskap mínum. Hún sagðist bara ekki finna fyrir mikilli ástríðu lengur og taldi það heilbrigt og eðlilegt. Ég vildi ekki að við yrðum eins og gömul hjón strax um fertugt. Hversdagsleiki gegnsýrði allt. Þannig hafði ég ekki ætlað að láta lífið verða. Mér fannst ég svikinn.

Stúlkan í bókhaldinu hét Sunna Dís. Mikið fannst mér það fallegt nafn. Hún var utan af landi en leigði litla stúdíóíbúð í Kópavogi. Ég kom þangað tvisvar og fannst þetta vera einmanalegur og dapurlegur staður. Í Sunnu Dís holdgerðist draumur minn um unga ást, tæra og taumlausa.

En fljótlega komst ég að því að hún átti við alls konar vandamál að stríða. Hún þjáðist af þunglyndi og kvíða auk meltingarvandamála og magabólgna. Engan þessara sjúkdóma bar hún utan á sér – kornung manneskjan. Samband okkar takmarkaðist að mestu við hvísl í síma, smáskilaboð og ástarjátningar í tölvupósti sem reyndar komu allar frá mér og voru ekki endurgoldnar nema með þökkum og hrósyrðum: Rosalega fallegt – takk – þú ert svo góður, algjör engill. Og hjörtu og broskallar. Þegar ég fékk að koma heim til hennar í fyrra skiptið hélt ég að nú myndi allt smella saman, en ég fékk ekki að snerta hana, hún ýtti mér frá sér og sagðist ekki vera tilbúin. Í stað atlota rakti hún fyrir mér raunir sínar sem voru nokkuð óljósar – eða hvað á ég að segja? – óhlutbundnar, óáþreifanlegar. Mest um hvað hún væri oft einmana og hrædd og kvíðin. Um martraðir sem hún fékk á nóttunni.

Einu sinni á laugardagskvöldi þegar ég var alveg friðlaus af þrá sendi ég henni sms og spurði hvað hún væri að gera. Hún svaraði að hún væri á skemmtistaðnum NASA við Austurvöll og væri búin að týna vinkonum sínum. Ég sagði konunni að ég þyrfti að kíkja í vinnuna og ók síðan beina leið í miðbæinn. Ég hafði aldrei komið á þennan skemmtistað áður og fann nú mjög til aldurs míns. Hér virtust allir tvítugir nema ég og tónlistin var framandi og vélrænn hávaði – engar ballöður eða rokk og ról. En mér tókst fljótt að finna Sunnu Dís í mannmergðinni. Hún stóð við vegg og brosti ástúðlega til mín með augun syndandi. Og nú fékk ég að kyssa hana. Hún angaði af áfengi og tóbaki en ég lét það ekki á mig fá. Munnurinn heitur og blautur, tungan stjórnlaus. Sælustraumur fór um mig. Ég leit flóttalega í kringum mig. Var einhver hérna sem þekkti mig? Það var ómögulegt að segja. Ég kyssti hana aftur. Hún var indæl og eftirlát en samt einhvern veginn eins og henni stæði á sama. Ég reyndi að tala við hana en það var svo mikill hávaði að við heyrðum ekki hvort í öðru. Ég heyrði bara að hún þurfti á salernið. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti fengið hana til að vera eina með mér í kvöld. Ég var langan tíma að finna hana aftur í mannmergðinni en þegar það gerðist var hún að kyssa annan mann. Í eitt augnablik leið mér eins og hryggbrotnum unglingi á skólaballi. Síðan bráði af mér og ég sá í hendi mér hvað það var fáránlegt að ég væri að þvælast á þessum stað, harðgiftur fertugur maðurinn. Ég fór heim aftur og horfði á restina af bíómynd í sjónvarpinu með konunni minni.

Ég ákvað að tala ekki framar við Sunnu Dís en snerist fljótt hugur því það var greinilegt að hún mundi ekkert eftir þessu kvöldi. Mig dreymdi um að hitta hana eina og edrú. Ég viðraði þá löngun mína við hana en hún sagði alltaf að hún væri ekki tilbúin, það væri svo erfitt hjá henni, erfiðar tilfinningar sem hún væri að glíma við, en ég gat ekki fengið að vita neitt áþreifanlegt um hvað þessir erfiðleikar snerust.

Kvöld eitt hringdi hún í mig hágrátandi. Ég rauk með símann út á stétt. Hún stamaði út úr sér milli ekkasoganna að henni liði svo hræðilega illa og gæti ekki verið ein. Gæti ég komið og verið hjá henni dálitla stund?

Aftur sagði ég konunni að ég þyrfti að skreppa niður í vinnu og ók heim til Sunnu Dísar. Hún tók útgrátin á móti mér og við féllumst í faðma. Ég varð rakur á gagnauganu og vanganum af tárum hennar.

Ég hrærðist og örvaðist af þessu og ætlaði að kyssa hana en hún stöðvaði það. Bað mig um að setjast og bara vera hjá sér stutta stund. Ég spurði hvað amaði að og átti bara von á óljósum svörum eins og vanalega. En hún sagði mér að fyrrverandi kærasti hennar væri byrjaður með vinkonu hennar. Að hún elskaði hann ennþá og hefði haldið að þau væru að taka saman á ný en svo hefði hún frétt af þessu í kvöld.

„Er þetta sami maður og þú varst að kyssa á NASA um daginn?“ hrökk út úr mér.

„Ha? Hvenær varst þú á NASA?“

Hún mundi greinilega ekkert eftir að hafa hitt mig þar, hvað þá kysst mig.

„Þetta eru svo mikil svik, ég ætla aldrei að tala við hana aftur.“

Ég var með holdris. Það hafði myndast í faðmlaginu og ekki hjaðnað síðan. Núna fann  ég liminn skreppa saman í buxunum.

Þetta var tveimur mánuðum eftir að ég og sonur minn lékum okkur í fótbolta í gamla hverfinu mínu og minningarnar vöknuðu með mér fyrir utan húsið sem hafði verið æskuheimili mitt. Þegar ég gekk niður dimman stigaganginn frá Sunnu Dís sá ég sjálfan mig fyrir mér að leika mér á dökkbláa gólfdúknum – að gömlum leikföngum sem ég var orðinn leiður á.

II.

5.

Þegar ég var fimmtugur var sonur minn 15 ára. Við spiluðum ekki lengur fótbolta saman enda var hann orðinn miklu betri en ég. Hann var einn besti leikmaðurinn í þriðja flokki í hverfisliðinu. Þjálfararnir sögðu að hann gæti náð mjög langt en mætti gefa boltann oftar á samherja sína. Auk þess kom fyrir að hann skrópaði á æfingum. Ég sá stundum leiki með honum og hæfileikarnir leyndu sér ekki. Mig hafði um tíma dreymt um að verða knattspyrnumaður en rak mig á það að hæfileikarnir voru ekki fyrir hendi. Þegar ég datt niður í B-liðið á fyrsta ári í 2. flokki fannst mér rétti tíminn til að leggja skóna á hilluna. Ólíkt mér hafði sonur minn þetta í sér, hvaðan sem hann hafði nú þessa knattspyrnuhæfileika. Ég sá gamlan draum rætast í honum. En þetta sumar kastaði hann þessu öllu frá sér. Hann hætti í fótboltanum. Sagðist ekki nenna á allar þessar æfingar og koma alltaf dauðþreyttur og sveittur heim. Auk þess væru þjálfararnir alltaf að vanda um fyrir honum. Hann vildi frekar eyða tímanum í tölvuleiki í herberginu sínu. „En þú getur orðið atvinnumaður!“

Hann yppti öxlum. „Ég nenni því ekki. Mér leiðist þetta.“

Reiðin blossaði upp í mér en ég náði að hemja hana. Ég vildi ekki dæma og predika eins og foreldrar mínir. Ég hafði alið börnin mín upp í því viðhorfi að þau ættu að ráða sér sjálf og gætu orðið hvað sem þau vildu. Ég hafði ausið í þau gjafir af því ég vildi ekki að þeim leiddist. Ég vissi að nú var ég að horfa upp á afleiðingar eigin uppeldisstefnu. Það var eins og foreldrar mínir hefðu haft rétt fyrir sér. Það gerði mig ennþá reiðari.

Hann fékk sumarvinnu á kassa í Bónus en hætti þegar sumarfríið var rúmlega hálfnað. Sagðist ekki nenna að eyða öllum dögum í vinnu og geta aldrei leikið sér neitt í sumarfríinu. Þá var mér nóg boðið og við rifumst heiftarlega. Hann var óvanur svona viðbrögðum frá mér og sagði: „Ertu klikkaður, maður!“ Þá varð ég bara æstari og æpti á hann: „Þú hættir ekki í Bónus! Heyrirðu það!“ Hann svaraði með því að rjúka út og skella á eftir sér útidyrahurðinni.

Móðir hans fórnaði höndum. Hún var samt ekki mikið fyrir tilfinningaþrungin viðbrögð.

„Kannski er best að leyfa honum bara að ráða þessu, þetta eru bara nokkrar vikur,“ sagði hún.

Ég svaraði henni ekki. Ég vissi að ég réð hvort eð er ekki við hann, ég gæti aldrei neytt hann í vinnuna. En ég hafði ráð til að láta hann gjalda fyrir þessa ákvörðun.

Korteri síðar kom hann heim aftur, strunsaði inn í herbergi til sín og settist við leikjatölvuna. Ég stakk mér í gættina hjá honum og sagði:

„Ætlaðir þú ekki að safna þér fyrir vespu?“

Hann horfði undrandi á mig.

„Öh, nei. Þú ætlaðir að gefa þér hana.“

„Það má vera en þú ætlaðir að æfa fótbolta og þú ætlaðir að vinna í Bónus. Þú stóðst ekki við það. Svo núna hætti ég við þetta. Ég kaupi enga vespu handa þér í haust og ef þú ætlar að eignast vespu geturðu safnað þér fyrir henni sjálfur.“

„Þú ert að djóka?“

Ég hristi höfuðið. Ég vissi að hann átti ekki mikla peninga, hafði eytt öllu í skyndibita og tölvuleiki, í góðri trú um að fá farartækið á silfurfati.

Hann varð ofsareiður. Öskraði á mig. Gekk yfirvegaðan berserksgang um húsið: felldi eldhúskoll í gólfið, barði í veggi og reif niður frístandandi fatahengi. Skemmdi ekki neitt. Síðan lokaði hann sig inni í herbergi.

„Var þetta nú nauðsynlegt?“ spurði konan mig ásakandi. Hún sagði að ég yrði að standa við orð mín.

„Það er kominn tími til að hann læri að maður verður að hafa fyrir lífinu,“ svaraði ég.

Ég fann þó að það var ekki slík umhyggja sem réð ákvörðuninni. Undir niðri hafði ég litlar áhyggjur af því að hann myndi ekki spjara sig í lífinu. Hann leit betur út en ég, var betri í fótbolta og greindari. Ólíkt mér þurfti hann lítið að hafa fyrir námi og var með háar einkunnir þó að hann legði lítið á sig. Hann var hættur að taka mark á mér og sýna mér þá virðingu sem honum bar. Með réttu eða röngu sá ég hann fyrir mér í hópi fólks sem ég hafði óbeit á: fallega og ríka fólkið sem fær allt upp í hendurnar á kostnað okkar meðalmennanna.

Nú sagði ég hingað og ekki lengra.

6.

Ástríða konu minnar hafði haldið áfram að minnka í gegnum árin. Sjálfur þráði ég ekki lengur að vera ástfanginn en ég var í stöðugri þörf fyrir kynlíf. Mér leið eins og maður sem er alltaf vannærður en sveltur aldrei heilu hungri, þó að sú samlíking sé kannski ekki sanngjörn og hugsanlega móðgun við sveltandi fólk.

Konan mín hafði heldur ekki áhuga á öðrum mönnum og hún var ekki vansæl heldur hamingjusöm og alltaf í afar góðu jafnvægi. Þetta jafnvægi hafði hún komið sér í með markvissum hætti eftir að hafa horft upp á endalausar deilur foreldra sinna og annarra í fjölskyldunni frá barnsaldri og langt inn í fullorðinsár. Þetta byggði á þeirri lífsstefnu að láta gjörðir og geðshræringu annarra aldrei koma sér í uppnám. Það hafði þann ókost fyrir mig að hún kærði sig kollótta um kvartanir mínar út af ónógu kynlífi. Hún sagði að kynlíf væri ofmetið. Samvera, félagsskapur og gönguferðir gæfu henni miklu meira. Ég sagði að ekkert hjónaband gæti þrifist án kynlífs (raunar hafði ég ekki hugmynd um það, þetta var bara mín kenning). Hún svaraði að okkar hjónaband væri heldur ekki kynlífslaust. Hins vegar væri ekki hollt að sökkva sér niður í losta, það væri fíkn, botnlaus og óseðjandi. Hún velti því fyrir sér hvort kynlífsáhugi minn væri sprottinn af sömu rót og sú árátta mín að sanka stanslaust að mér raftækjum. Ég var enn í sama starfi, verslunarstjóri í stórri raftækjaverslun. Ég gat keypt allt á hálfvirði í versluninni og sumt fékk ég ókeypis sem sölubónusa eftir vertíðir í kringum jól og fermingar. Það voru fimm flatskjáir á heimilinu, nokkrar leikjatölvur, dýrasta gerð af kaffivél í eldhúsinu og frábær matvinnsluvél sem konan mín hafði vel að merkja ekki slegið hendinni á móti; nýleg hljómflutningstæki og við áttum öll í fjölskyldunni nýjustu og bestu gerðir af snjallsímum. Í bílskúrnum var síðan aragrúi af úreltum en heilum tækjum. Í hvert skipti sem ég kom heim með nýtt tæki fannst mér ég sigrast í dálitla stund á gömlu nægjuseminni og tómleikanum úr æsku. Konan mín hvatti mig til að sinna andlega nærandi hugðarefnum með sér, til dæmis garðrækt, gönguferðum í náttúrunni, jafnvel hugleiðslu og jóga – ég hefði virkilega gott af því. En ég hafði hvorki eirð né áhuga til að sinna neinu af þessu með henni.

Þá sjaldan við höfðum kynmök gerði hún kynlífið svo fágað að það hefði verið hægt að sýna það í Stundinni okkar. Ekki vera svona æstur. Ekki vera svona grófur. Hún stýrði algjörlega hvílubrögðunum. Sagði samfarir karls og konu vera heilaga stund sem ekki ætti að draga niður á klámfengið plan. Hún vildi hafa breitt yfir nakta líkama okkar á meðan við nutumst. Oft þurfti ég að eyða löngum tíma í að nudda hana áður en nokkuð annað gerðist. Áður en yfir lauk fékk ég þó mitt sáðlát en hún fékk aldrei fullnægingu með mér. Þegar ég áræddi einu sinni að hafa orð á því sagðist hún stundum fá fullnægingu ein með sjálfri sér. Hvað!? Hvers vegna var hún að gera þetta sjálf ef hún vildi næstum aldrei gera það með mér? spurði ég. Hún sagði að mér kæmi ekki við hvað hún gerði ein með sjálfri sér og sínum líkama. Það var auðvitað rétt. Ég gerði þetta líka oft einn með sjálfum mér, margfalt oftar en með henni – en aldrei hafði mér hvarflað að segja nokkrum frá því, það var einskonar leyndarmál.

Mér fannst ég svikinn og hlunnfarinn. Út um allt var verið að fjalla um kynlíf og dásemdir þess. Aðeins ég virtist fara á mis við það. Meira að segja konan mín naut þess án mín.

7.

Þegar ég var ungur hafði ég sagt við sjálfan mig að ég ætlaði ekki að vera í sama starfinu alla ævi. En árin höfðu liðið hratt og núna var ég fimmtugur, á þeim aldri þegar sjóndeildarhringurinn tekur að þrengjast og maður veigrar sér við að feta nýjar brautir. Ég spáði ekki lengur í það hvort mér þætti gaman í vinnunni, var bara feginn að halda starfinu.

Sunna Dís var fyrir lifandis löngu hætt í bókhaldinu. Ég vissi ekkert hvað hafði orðið um hana og leiddi sjaldan að henni hugann. Ég hafði ekki gert aðra tilraun til framhjáhalds síðan þá. Samt leið ekki sá dagur að ég hugsaði ekki um aðrar konur. Fyrir lifandis löngu var ég farinn að líta á það sem eðlilegan hlut af lífinu. Konur voru eins og leikföngin í auglýsingabæklingunum í barnæsku sem ég lét mig dreyma um en vissi að ég fengi aldrei. Konur voru leikföng sem voru ekki ætluð mér.

Einn daginn var haft samband við mig af verkstæðinu vegna ævareiðs viðskiptavinar sem krafðist þess að fá að tala við verslunarstjórann. Í bakgrunninum heyrði ég kvenrödd hóta lögsókn og fjölmiðlaumfjöllun. Hún var með tölvu sem hafði bilað eftir aðeins mánaðarnotkun. Viðgerðardeildin komst fljótt að því að tækið hefði orðið fyrir hnjaski. Þau sögðu að tölvan væri ónýt og hefði annaðhvort fallið úr mikilli hæð á hart yfirborð eða einfaldlega verið grýtt í vegg.

Konan var búin að róa sig niður þegar hún kom inn á skrifstofuna til mín. Hún sagði ekki eitt styggðaryrði við mig en horfði sárbænandi á mig. Hún var ljóshærð með falleg blá augu, andlitið laglegt en kringluleitt. Tíminn hafði hlaðið utan á hana nokkru fitulagi. Líklega var hún á aldur við mig. Hún sagði að ekkert hefði komið fyrir tölvuna. Hún ætti að vita það best enda notaði hana enginn nema hún. Hún gæti ekki án tölvunnar verið sem stundum væri eina samband hennar við umheiminn. Hún væri stundum svo illa haldin af vefjagigt að hún kæmist varla fram úr rúminu, hvað þá út úr húsi.

„Bara að geta sett einn status á Facebook: „Er óttalegur Lasarus í dag“ – þá vita vinir mínir hvað klukkan slær og senda mér fallegar batakveðjur. Ég hafði í rauninni ekki efni á þessari tölvu en ég varð að gera eitthvað eftir að hann stal símanum.“

„Hver stal símanum þínum?“ spurði ég.

Hún hikaði.

„Sko, snjallsímanum, iPhoninum mínum var stolið og þá kaupi ég mér þessa fartölvu á tilboði. Til að komast á netið. Að hafa aðgang að internetinu er mannréttindi, vinur minn. Ég nánast svelti mig í viku til að eignast þessa tölvu og ég er enn í bullandi mínus út af henni. Og ég bara get ekki…“

Hún þagnaði og beygði af, hljóðlaust. Þetta minnti mig á atriði í einhverri mynd þar sem maður rétti grátandi konu bréfþurrkubox. En sá maður var örugglega sálfræðingur eða geðlæknir, ég var bara verslunarstjóri í raftækjaverslun og hér voru engar bréfþurrkur. En konan harkaði fljótt af sér. Hún varð einbeitt og ákveðin.

„Sjáðu til. Við öryrkjar höfum ekki efni á að fara í leikhús eða út að borða eða bara kíkja á pöbbinn, við höfum varla efni á að fara á kaffihús, bollinn af latte er kominn upp í 600 kall í miðbænum. Við þurfum að velta fyrir okkur hverri krónu, bara það að koma hingað með tölvuna, taka strætó fram og til baka, er smá höfuðverkur fyrir mig. Netið er oft eina upplyftingin og félagslífið okkar. Ég held líka að samfélagið vilji bara svelta okkur og moka okkur út í horn, sópa okkur undir teppið eins og kuski og ryki.“

Það hljóp hiti í hana, hún varð rjóð í mjúkum vöngunum og augasteinarnir dökknuðu. En hún hélt stillingu sinni og reiði hennar beindist ekki gegn mér.

„Til dæmis þetta fyrirtæki, ha! Búið að skipta tvisvar um kennitölu og núna partur af gjaldþrotabúi útrásarvíkinga, í eigu Landsbankans, ha!, og ætlar núna að fara að níðast á fátækum öryrkja og sjúklingi, ha! Það held ég að fjölmiðlar fengju eitthvað að smjatta á!“

Ég benti henni á sprunguna á lokinu. Þá lenti hún í mótsögn við sjálfa sig: sagði að þetta væri örugglega eftir son hennar.

„Hann ryðst inn á mig þegar honum sýnist og rótar í öllu. Ég ræð ekkert við hann, það vill enginn hjálpa mér.“

Sonur hennar var þrítugur fíkill og hafði stolið snjallsímanum hennar til að fjármagna fíkniefnakaup. Tölvuna hennar hafði hann bara tekið til að nota hana en skilað henni aftur.

Hún rakti hvernig samfélagið hefði brugðist syni hennar með því að veita honum ekki réttar meðferðir við geðröskunum á barnsaldri svo hann varð utanveltu og leiddist út á fíkniefnabrautina á unglingsaldri.

„Ertu bæði að reyna að segja mér að ekkert hafi komið fyrir tölvuna og að sonur þinn hafi eyðilagt hana? Það getur ekki verið hvorttveggja.“

„Ég sagði ekkert að hann hefði eyðilagt hana. Ég sagði bara að hann fékk hana aðeins lánaða.“

„Það hringlar í henni! Hún hefur orðið fyrir höggi!“

Ég hvessti mig dálítið.

Hún varð skyndilega auðmjúk á svipinn. Þagði. Dró síðan djúpt andann, blés frá sér og sagði með þunga:

„Ég sé á þér að þú ert sanngjarn maður.“

Hún horfði aftur stíft og sárbænandi í augu mín eins og áðan, en núna var komið eitthvert blik í augu hennar sem olli því að ég fór hjá mér og leit undan.

„Góður maður,“ bætti hún við nánast í hvísli.

Þegar ég mætti augum hennar aftur brosti hún stríðnislega í gegnum alla angistina og bænina.

Ég roðnaði í vöngunum og kitlandi straumur fór um mig.

Þögnin hlóðst eftirvæntingu og spennu.

Ég virti hana fyrir mér, sá hana eins og hún hafði verið ung eða á besta aldri – falleg.

Ég leit aftur undan og sagði:

„Heyrðu. Við leysum þetta. Ég get græjað handa þér tölvu.“

8.

Hún reyndist eiga heima í sama hverfi og ég. Bjó í einni af blokkunum sem stóðu í dálítilli þyrpingu uppi á hæðinni, í um 500 metra fjarlægð frá mínu heimili. Það var stundum talað af óvirðingu um þessar blokkir vegna þess að einstaka íbúðir þar voru í eigu Félagsþjónustunnar sem leigði skjólstæðingum sínum þær. Auk þess bjó slatti af nýbúum þarna, sumir með annan hörundslit en Íslendingar, en síðast ekki ekki síst voru smáglæpir sem framdir voru í hverfinu, eins og reiðhjólaþjófnaður, sala á kannabisefnum, veggjakrot og alls konar skemmdarverk iðulega tengdir við ungmenni sem bjuggu í þessum blokkum – með réttu eða röngu.

Við sem bjuggum í parhúsunum, raðhúsunum og einbýlishúsunum fyrir neðan vorum kannski að jafnaði betur sett en fólkið í blokkunum á hæðinni en það var ekki einhlítt, sumir hér höfðu farið illa út úr hruninu, áttu ekkert í meintum húseignum sínum og skulduðu mun meira en sem nam verði þeirra. Einhverjir voru með allt í frystingu, voru lausir undan afborgunarklafa í bili en vissu ekki hvar þeir kæmu til með að búa innan nokkurra missera, máttu jafnvel þakka fyrir að fá að hírast í lítilli leiguíbúð í blokk. Sumt af þessu fólki talaði af mestu lítilsvirðingu um íbúana í blokkunum á hæðinni.

Ég hafði tekið fartölvu af lagernum sem var sömu gerðar og konan hafði keypt og skráði þau kaup á mig; ég gat síðan valið um að láta draga 50 þúsund krónur af laununum mínum um næstu mánaðamót eða þetta gengi upp í næsta sölubónus. En það var alveg ljóst að verslunin var ekki að bæta konunni neitt, þetta var gjöf frá mér persónulega. Ég roðnaði við tilhugsunina. Þetta var í rauninni alveg glórulaus verknaður af minni hálfu.

Við höfðum sammælst um að ég kæmi með tölvuna til hennar daginn eftir og ég fann lausa stund upp úr hádegi. Það var enginn á ferli í hverfinu þegar ég mætti á staðinn. Bílhljóð í fjarska. Eftir dálitla leit fann ég bjölluna hennar og hringdi. Dyrnar opnuðust með lágum smelli og örlitlu bergmáli. Það var ekkert sagt í dyrasímann. Ég gekk inn. Ég fann fyrir fiðringi en hugsaði með mér að það væri örugglega ekkert að fara að gerast.

Hún tók á móti mér í baðslopp og ilmaði af sápu og sjampói og húðkremi.

„Ég var Lasarus í morgun svo að ég var rétt að komast á fætur,“ sagði hún og brosti afsakandi, væntanlega yfir því að vera fáklædd.

„Þú þekkir söguna um Lasarus, ekki satt? Hann var reistur upp. Það gerist líka alltaf með mig. Það vakir eitthvað yfir mér og hjálpar mér áfram.“

Ég vissi ekkert um hvað hún var að tala.

„Eigum við að kveikja á tölvunni og athuga hvort ekki sé örugglega allt eins og það á að vera?“

„Ljómandi,“ sagði hún og skælbrosti og benti á lítið hvítt skrifborð í horni stofunnar. Þetta var lítil íbúð en snyrtileg. Allt í röð og reglu og ilmaði af hreinlæti. Það kom mér dálítið á óvart og ég spurði sjálfan mig hvaða fordómar það væru. Það var mikið af bókum í stofunni. Bókahillur þöktu tvo veggi. Við fyrstu sýn virtust þetta ekki vera andlegar bækur eins og konan mín las – hvað sem leið orðum konunnar um að eitthvað vekti yfir henni – heldur skáldsögur, til dæmis ritsafn Halldórs Laxness, og einhvers konar fræðirit á ensku, á einum kilinum stóð „Political Theory“. Ég les aldrei neitt en mér finnst að ég eigi að gera það og þess vegna skoða ég oft bækur, les jafnvel aftan á þær.

Hún spurði hvort ég vildi kaffi eða pressaðan ávaxtasafa sem hún væri einmitt að fara að laga sér og ég þáði safann þó að mig langaði ekki í neitt. Áður en hún fór inn í eldhús beygði hún sig niður í gólfið til að stinga tölvusnúrunni í samband við innstungu í veggnum undir skrifborðinu. Í leiðinni straukst hún utan í mig. Ég fann sterkari lykt af henni en áðan; mér fannst lyktin góð.

Ég ræsti tölvuna og hún setti glösin með þykkum appelsínugulum vökva á skrifborðið, náði sér í stól og settist við hlið mér. Ég prófaði með henni helstu forritin sem hún taldi sig þurfa. Við höfðum farið yfir þetta í gær og ég hafði punktað hjá mér og gætt þess að hafa allt tipp topp fyrir hana. Ég bragðaði aldrei á safanum, ætlaði alltaf að gera það en gleymdi því. Hún sötraði dálítið hátt af sínu glasi og sæt ávaxtalykt tók að blandast ilminum af henni. Ég sýndi henni líka hvernig hún ætti að læsa aðganginum að tölvunni og búa sér til lykilorð. Hún sagði bara „mhm“, „mhm“ og kinkaði kolli aftur og aftur. Handleggir okkar snertust á borðplötunni og mér fannst það vera af hennar völdum en sagði sjálfum mér að það væri ímyndun. Ég dró stundina á langinn, fór yfir alls konar atriði sem ég vissi að hún kunni vel, þó að hún væri miðaldra kona sem las bækur, atriði sem var nánast móðgun að nefna, en hún móðgaðist ekki heldur hélt áfram að segja „mhm, mhm“ og kinkaði kolli.

Loks var ekkert eftir sem mögulegt var að útskýra svo ég sneri mér að henni og sagði:

„Jæja, þá er þetta víst bara komið.“

Hún horfði ástúðlega í augu mín og sagði:

„Þú ert algjör engill!“

Hún var andstutt. Eða var það óskhyggja?

Við horfðumst í augu. Þögn. Ég las sömu löngunina úr augum hennar og ég fann fyrir sjálfur. En lífið er ekki ljósblá klámmynd þar sem lostinn sprettur upp úr hversdagsleikanum, það var ekki um annað að ræða en standa upp og kveðja. Ég hélt ég væri að fara að gera það en samt sat ég kyrr og færði varir mína nær hennar vörum. Hún gerði það sama og mætti mér á miðri leið. Eftir fyrstu snertingu varanna gerðist allt af sjálfu sér, eins og þegar vél er sett í gang með því að ýta á hnapp, allt þetta sem maður þráir alltaf en er vanalega svo erfitt að fá, kostar vandræðalegan og tafsaman aðdraganda og kemur síðan ekki eða veldur vonbrigðum, hér kom það allt í einum hvelli – blautt, heitt og hamslaust, í senn fálmkennt og markvisst. Örfáum mínútum eftir græðgislegan og örvæntingarfullan koss ólmuðumst við kviknakin á rúminu hennar. Hún var svo hungruð, ég hafði ekki kynnst þessu hungri hjá konu áður en alltaf þráð það. Óskaplega var langt síðan ég hafði upplifað að konu virkilega langaði í mig! Og hún var fjandakornið gullfalleg! Vissulega ansi mjúk en líka þrýstin og löguleg. Það sem gerði hana þó umfram allt fallega var girndin – hungrið.

Þegar ég gaus inn í hana leið mér eins og ég hefði aldrei fengið fullnægingu áður, að allar aðrar fullnægingar ævinnar hefðu bara verið sýnishorn. Ég veinaði af nautn.

Á eftir lá ég lengi þögull í þessu ókunnuga rúmi, afvelta af sælu til að byrja með, en smám saman náði veruleikinn tökum á mér aftur. Konan reis á fætur og fór inn á baðherbergi. Ég sá að hún var ekki eins falleg og mér hafði fundist í brímanum rétt áðan. Lærin voru holdug og þakin appelsínuhúð. Þegar hún kom til baka sá ég að maginn var siginn og hún var hrukkóttari í framan en mig minnti. Ég horfði niður á sjálfan mig þar sem limurinn lá slyttislegur í hvíld, hringaður eins og sofandi köttur. Allir sögðu að ég væri unglegur miðað við aldur en samt var ég kominn með dálitla bumbu. Ég sá hana jafnvel þó að ég lægi á bakinu. Ég gerði allt rétt, borðaði lítið og var duglegur að hlaupa en það sigrar enginn tímann.

Það brakaði hátt í rúminu þegar konan skreið upp í það aftur. Hún hjúfraði sig upp að mér og talaði blíðlega til mín:

„Þú trúir því ekki hvað ég er einmana,“ sagði hún. „Ég er svo innilega glöð að þú skulir vera hérna. Ertu kannski alvöru engill? Var guð að senda mér engil?“

Ég sá fyrir mér engil með vængi við þær aðfarir sem ég hafði staðið í með konunni rétt áðan og myndin vakti mér stuttan og hvellan hlátur. Konan brást ekki við hlátrinum en sagði að það væri dásamlegt þegar tvær ókunnugar manneskjur næðu að tengjast eins og við. Þetta gæti ekki verið nein tilviljun. Hér væri eitthvert lögmál, einhverjir kraftar í tilverunni að verki. Ég kinkaði kolli og umlaði „mhm“ en mér hraus hugur við þessu tali og skyndilega leið mér jafn illa á þessum stað og mér hafði liðið vel rétt áðan. Ég gætti þess að leyna þessu, ég hef aldrei verið skíthæll við konur og vildi ekki taka upp á því á gamals aldri, svo ég kyssti hana á kinnina, þó að mig langaði ekki til þess. En ég þurfti að koma mér í vinnuna, það var engin lygi heldur sannfærandi ástæða til að kveðja snögglega. Konan svaraði kinnkossinum með því að draga mig í fangið og kyssa mig áfergjulega á munninn. Ég svaraði kossinum samviskusamlega en lystarlaust.

Ég fékk að fara í sturtu hjá henni, ekki langaði mig til þess en vildi ekki hætta á að torkennileg lykt fyndist af mér heima um kvöldið. Ég óttaðist að hún kæmi með mér í sturtuna en það gerði hún ekki heldur sveipaði sig sloppnum aftur, settist við eldhúsborðið sitt, kveikti sér í sígarettu (ég vissi ekki að hún reykti) og fór að leggja kapal. Ég velti því fyrir mér hvernig það væri að sitja heima hjá sér á skrifstofutíma og hafa ekkert betra að gera en leggja kapal. Mér fannst það vond tilhugsun þó að mér þætti ekkert sérstaklega gaman í vinnunni.

Baðherbergið hennar var lítið og snyrtilegt. Þurr handklæði héngu á vegggrind. Ég var dálitla stund að átta mig á sápustöðunni en svo fann ég svartan sjampóbrúsa við baðherbergisgluggann. Um leið og ég skrúfaði frá vatninu þyrmdi yfir mig þeirri tilfinningu að ég væri einhver annar maður, persóna í sjónvarpsþætti sem fer í sturtu hjá hjákonu sinni.

9.

Næstu daga leið mér eins og ég hefði gert mistök sem yrðu ekki endurtekin. En kannski var það of seint. Ég óttaðist að þessi kona, sem ég vissi ekki einu sinni hvað hét þó að hún hefði eflaust kynnt sig með nafni í gær, legði of mikla merkingu í það sem hafði gerst á milli okkar og teldi sig eiga hönk upp í bakið á mér. Þá væri ég vægast sagt í miklum vanda. Mér varð hugsað til þess hvernig hún hafði látið á verkstæðinu í gær og hvað það gæti kostað mig ef reiði hennar vaknaði og beindist gegn mér.

Því meira sem ég hugsaði um þetta því verr leið mér. Tvær næstu nætur var ég meira og minna andvaka. Svo rann upp þriðji dagurinn og konan hafði enn ekki haft samband. Kannski var von eftir allt saman um að hún léti mig í friði. Svo var skyndilega liðin heil vika og enn hafði hún ekki meldað sig. Þá hætti ég að hafa áhyggjur. Ég svaf prýðilega. Um helgina fór ég að upplifa atvikið með öðrum hætti en þegar ég kvaddi konuna. Ég fór að hugsa meira um hvernig mér hafði liðið fyrir og á meðan samförunum stóð. Upprifjunin hætti að vekja mér ógeð og skelfingu en fór að vekja mér girnd. Ég reyndi að fá konuna mína til að hafa mök við mig en það eina sem hún bauð mér upp á var gagnkvæmt nudd. Ég hafði prófað það áður, hún bar á mig örvandi olíu en nuddaði mig ekki niður fyrir bak. Sagði mikilvægt að læra að njóta unaðssemda snertingar án kynlífs og samfara. Ég þurfti að losa mig sjálfur á klósettinu á eftir. Ég hafði ekki áhuga á þessu aftur en varð reiður og hreytti út úr mér að ég myndi ekki líða þetta þetta kynsvelti lengur.

„Þetta mun hafa afleiðingar,“ sagði ég lágt en ofsareiður og skók að henni vísifingur. Hún horfði róleg á mig, brosti og sagði:

„Það sem verður, það verður.“

Æðruleysisfrasi. Pfuff! Ég þekkti þennan þankagang hennar: að það væri mín ákvörðun að vera reiður og snerti hana ekki. Ég var svo reiður að mig langaði til að mölva gluggarúðu með hnefanum.

Í næstu viku fór hin konan að verða aftur aðlaðandi og falleg í huga mínum. Hún fór að líta út eins og hún leit út á meðan við nutumst en ekki eins og hún leit út eftir það. Um miðja vikuna var mig farið að langa næstum jafnmikið í hana og á því augnabliki þegar varir okkar snertust. Þá hringdi ég í hana, bara rétt mátulega taugaóstyrkur, enda var ég fimmtugur en ekki óreyndur unglingsstrákur.

Hún virkaði fremur ósnortin í símanum, ég segi ekki áhugalaus. Ég er jafnvel ekki frá því að það hafi tekið hana nokkrar sekúndur að átta sig á því hver ég var. Þetta dró dálítið úr mér kjarkinn en engu að síður spurði ég, eftir að hafa kyngt munnvatni, hvort ég ætti að heimsækja hana aftur. „Endilega,“ sagði hún glaðlega og það hljómaði eins og ég væri frænka hennar sem ætlaði að kíkja í kaffi.

En þegar ég kom til hennar daginn eftir leið ekki á löngu þar til við vorum komin úr fötunum og samfarirnar voru jafnákaflegar og síðast. En á eftir leið mér ekki eins illa og þá. Mig langaði svo sannarlega ekki í hana lengur en núna vissi ég að mig myndi langa í hana aftur. Hún glataði allri fegurð sinni um leið og ég var búinn að fá fullnægingu. En ólíkt síðast fann ég hvorki fyrir skelfingu né sektarkennd. Ég vissi svo sem að sektarkenndin var ekki langt undan og vildi ekki stoppa lengi en var líka dálítið forvitinn og til í spjall. Ég spurði hana hreint út hvers vegna hún hefði ekki haft samband.

„Hahaha. ÉG? Hvers vegna hafðir ÞÚ ekki haft samband?“ Hún skríkti af kátínu og elskulegri stríðni.

„Jájá, ég veit, en ég var einhvern veginn sannfærður um að þú myndir hringja. Þú varst eitthvað svo… innileg þegar ég kvaddi.“

„Ég hringdi ekki af því ég vissi að þú kæmir aftur.“

Ég velti mér á hliðina og við horfðumst í augu.

„Ég vissi að þú hefðir samband og kæmir aftur þegar þú værir tilbúinn,“ bætti hún við.

„En ég er giftur og vil ekki skilja,“ sagði ég alvarlegur í bragði. Staðreyndin var sú að ég hafði aldrei velt því fyrir mér hvort ég vildi skilja eða vera giftur konunni minni áfram, svo undarlega sem það hljómar.

„Auðvitað ertu ekkert að fara að skilja, ekki út af mér,“ sagði konan í léttum og lífsreyndum tóni.

„Hafðu engar áhyggjur af mér, ég kem þér ekki í nein vandræði.“

Ég sagðist hafa orðið dálítið smeykur þegar hún fór að segja að ég væri sendur til hennar sem engill og að það væri undursamlegt að við hefðum náð saman.

„Ég hef trú á að allt gerist fyrir tilgang en ekki tilviljun,“ svaraði hún hugsi. „Og mér finnst undursamlegt að við höfum náð saman. En það snýst um að lifa í augnablikinu, ekki bindast neinum. Ég ætla ekki að verða hversdagsleikinn þinn, vinur.“

10.

Nú var sektarkenndin ekki blönduð ótta um að upp um mig kæmist. Slík sektarkennd er hrein og tær, hlaðin sorg og einmanaleika. Hún er falleg eins og haustlitir eða rökkurstilla.

Eitt kvöldið þegar ég var í þessu hugarástandi mætti eiginkona mín skyndilega augum mínum. Þá var ég búinn að hitta hina konuna þrisvar sinnum og það voru liðnar fjórar vikur síðan ég hitti hana fyrst. Sumarið var á enda og fyrstu haustdagarnir gengu í garð. Ég hafði verið að fylgjast með konunni minni vökva blómin og á meðan hafði mér sjálfum vöknað eilítið um augu. Ég var að hugsa um hvað hún var góð eiginkona (fyrir utan kynlífið) og góð móðir og yfirhöfuð góð manneskja. Ég hugsaði um allt sem við áttum saman, allt sem við höfðum byggt upp og allar gleðilegu minningarnar sem við deildum. Ég var ekki síður búinn að svíkja sjálfan mig en hana.

Allt í einu  mætti hún augum mínum. Ég leit skelfdur undan. Gerði mér allt í einu grein fyrir því að ég var tárvotur og sorgmæddur á svipinn. Samt leit ég aftur á hana. Hún var dálítið undrandi á svipinn eitt augnablik en svo hélt hún bara áfram að vökva. Þegar við vorum ung hefði hún áreiðanlega spurt: Hvað er að? Þetta gegndarlausa æðruleysi og sátt við tilveruna virtist hafa rænt hana lágmarksforvitni. Ég hugsaði: Hún á aldrei eftir að komast að þessu. Tilhugsunin vakti bæði létti og depurð.

Mig langaði til að spjalla við son minn. Ekki segja neitt sérstakt, bara vera með honum.

Ég fór að herberginu hans þar sem hann sat jafnan yfir einni af leikjatölvunum sem ég hafði gefið honum. En einhver vinur hans var hjá honum. Þeir sátu þarna báðir með fjarstýringar í höndunum og mændu á flatskjáinn þar sem vopnaðir menn í herfötum þvældust um í húsarústum. Ég sagði bara hæ og hvarf úr gættinni. Þeir tóku ekki undir. Ég horfði út um stofugluggann. Það var myrkur; haustið var að bresta á. Það var svalt úti en hreyfði ekki vind. Mér fannst stutt síðan var bjart allan sólarhringinn. Júní og júlí. Á þeim tíma grunaði mig ekki að ég ætti eftir að gera það sem ég var búinn að gera. Fimmtugasta haustið á ævi minni var að ganga í garð. Óskapleg angurværð hríslaðist um mig við að horfa í myrkrið.

Það var slökkt á sjónvarpinu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að kveikja á því og horfa á einhvern glæpaþátt. Konan mín horfði aldrei á sjónvarp lengur. Hún var farin út úr stofunni núna, líklega inn í tómstundaherbergið sitt til að hugleiða eða lesa.

Skyndilega kvaddi vinur sonar míns. Ég heyrði hann segja bless með hálfdimmri og hálfskrækri unglingsrödd, ganga fram, klæða sig í skóna í anddyrinu og skella útidyrahurðinni.

Síðan sá ég hann út um gluggann, í bjarmanum frá útiljósinu, setjast á rafmagnsvespu með hjálm á höfðinu. Hann brunaði hljóðlaust frá húsinu. Ég hafði ekkert tekið eftir þessari vespu fyrr í kvöld. Ég hugsaði til sonar míns sem sat inni í herberginu og átti enga vespu. Ég fékk sting í hjartað.

Ég fór rakleitt inn í herbergi og tilkynnti honum að ég væri búinn að skipta um skoðun, ég ætlaði að kaupa handa honum vespu í vikunni.

Hann horfði forviða á mig.

„Þú ert að djóka, ókei?“

„Nei, alls ekki.“

„Hvers vegna skiptirðu um skoðun?“

Ég hugsaði mig um. Leitaði að einhverju uppeldislegu svari. En það var ekki til. Svo ég sagði:

„Ég vil ekki að vinir þínir séu á vespu og þú ekki.“

Og það var satt. Þetta var sagt í einlægni.

Þá gerði hann nokkuð sem hann hafði ekki gert mjög lengi, ég veit ekki hvað lengi. Hann stóð á fætur, gekk til mín og faðmaði mig. Vellíðan hríslaðist um mig.

11.

Nokkrum dögum síðar ákvað ég að kaupa blóm handa konunni minni. Áður fyrr gaf ég henni stundum blóm að tilefnislausu og það hafði alltaf glatt hana. En það var orðið langt síðan. Ég hafði steinhætt þessu. Hvers vegna? Kannski var þetta gott dæmi um að ég átti sjálfur minn þátt í því hvað ástarlíf okkar var orðið dauft.

Það var blómabúð í dálitlum verslunarkjarna í hverfinu okkar en þegar ég kom þar að var miði á dyraglugganum sem á stóð: Lokað vegna jarðarfarar.

Ég ók um borgina og reyndi að rifja upp með mér hvar blómabúðir væru. En ég gleymdi mér í þönkum mínum, angistarfullu flökti milli þess að vilja hætta framhjáhaldinu og verða konu minni trúr til æviloka og hugsana um hvenær ég ætti að hitta hina konuna næst.

Ég hrökk upp úr þessum hugsunum við það að ég var kominn í gamla æskuhverfið mitt. Eins og fyrir tíu árum hafði mig borið hingað án ásetnings. Það var klárlega blómabúð í verslunarmiðstöðinni hér. En fyrst ég var kominn hingað þá ákvað ég að skoða aftur gamla æskuheimilið mitt áður en ég færi inn í verslunarmiðstöðina. Síðast hafði það staðið autt en það hlaut einhver að vera fluttur inn í það núna. Mér varð hugsað til bláa gólfdúksins, tómleika hversdagsins í nægjuseminni. Þessi dökkbláa nægjusemi.

Ég gekk frá planinu í átt að húsinu, alveg eins og fyrir tíu árum. Ég gekk framhjá sparkvellinum sem við höfðum leikið okkur á þá. Þetta hverfi var orðið að tvöföldu minningarsvæði: það var tíu ára minningin og það voru æskuminningarnar. Lífið er stanslaus verðandi. Allt verður að minningu. Samt virðist ekkert breytast frá degi til dags.

Æskuheimilið var horfið. Á reitnum var risið nýtt hús, fokhelt. Jæja. Gamla rauða bárujárnsþakið og hvítu veggirnir – nú var eins og það hefði aldrei staðið hérna, aldrei verið til.

Héðan þar sem ég stóð hafði alltaf sést út á haf og fjöllin, gráblá og hvít í fjarska. En þetta sást ekki lengur fyrir háhýsunum sem höfðu risið í áranna rás. Með öðrum orðum: núna var gamla hverfið mitt með öllu horfið. Hér var ekkert lengur sem minnti á gamla tímann, æskuár mín. Þessi tilhugsun vakti mér einkennilegan létti. Það var engin fortíð. Það var bara nú-ið og sú framtíð sem ég kaus að búa mér. Lífið var óskrifað blað. Allt í einu fann ég ekki fyrir neinu samviskubiti. Ég vissi að það ástand myndi ekki vara lengi og ákvað að njóta þess.

Ég gekk aftur út á planið, inn í verslunarmiðstöðina og fór að leita að blómabúðinni. En smám saman rann upp fyrir mér að mig hafði misminnt. Hér var engin blómabúð. Mér var ekki ætlað að kaupa blóm í dag. Ég settist inn í bílinn og hugsaði um það sem konan mín hafði sagt þegar ég reifst við hana um daginn: „Það sem verður, það verður.“ Meira hafði ég ekki að segja við sjálfan mig í bili og ég ók heim nokkuð sáttur við þá staðreynd að líf mitt var fullkominni óvissu undirorpið.


Ágúst Borgþór Sverrisson.

Ágúst Borgþór Sverrisson er fæddur 1962. Hann er rithöfundur og blaðamaður og hefur einnig vakið athygli fyrir pistlaskrif. Út hafa komið eftir hann smásagnasöfn, ljóðabók og skáldsögur.