Við búum í Svíþjóð, ég og konan mín. Ég er hamingjusamlega kvæntur maður og hef það almennt ágætt. Ég á það til að gjóa augunum að öðrum konum, en ég veit vel að ég mun aldrei yfirgefa Rúnu. Það er einfaldlega það traust samband á milli okkar. Eða það hélt ég áður en Trausti kom í heiminn.
Trausti fæddist fullkomlega hraustur og kom í heiminn í eðlilegri fæðingu. Enginn keisari, ekkert drama. Bara smá átök og út kom hann á skipulögðum tíma. En Trausti var ekkert slysabarn. Við höfðum reynt í dágóðan tíma. Tvö ár hafði það tekið ásamt alls konar ígripum. Svo allt í einu gerðist þetta bara af sjálfu sér.
Oftar en ekki eru börn svokölluð slysabörn. Trausti var vel skipulagt barn af okkar hálfu og við töldum okkur undir það búin að sinna afkomanda okkar.
Ég var ekki búinn að vera nema viku í vinnunni þegar Rúna hringdi grátandi. Hún bara gat þetta ekki.
„Ég get þetta ekki lengur Friðrik. Ég vil þetta ekki. Hann bara grætur og öskrar og ég er svo þreytt.“
Frídagarnir sem ég hafði áunnið mér í vinnunni hurfu eins og dögg fyrir sólu þessa mánuði sem Rúna var í fæðingarorlofi. Samskiptin á milli okkar hjóna breyttust úr því að vera tilfinningaleg í það að vera fagleg. Það þurfti að sjá um Trausta. Kynlífið var horfið eins og hendi væri veifað. Oftar en ekki stóð ég mig að því að fróa mér inni á klósetti fyrir háttinn. Ég vildi ekki einu sinni reyna, Rúna var svo fjarlæg. Hún breyttist í konu sem ég þekkti ekki. Ef þetta hefði verið hún þegar ég hitti hana fyrst, þá hefði ég ekki látið slag standa.
Á tímabili var ég farinn að hugsa um skilnað. Allt í einu var minn tími kominn. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti eftir að hringja í hana með grátstafinn í kverkunum, en játaði það fyrir sjálfum mér að hún hafði tekið erfiðasta hlutann. Trausti var orðinn nokkuð vanur umhverfi sínu og maginn ekki eins slæmur eftir þá mánuði sem Rúna var með hann.
Ég var hálffeginn í fyrstu að fara í frí frá vinnunni. En það var bara í fyrstu. Það tók á taugarnar að gefa barni, skipta á því og hafa ofan af fyrir því svo það myndi ekki orga á mann. Tímann sem Trausti svaf notaði ég sjálfur til að sofa. Ég var þó alltaf svo taugaveiklaður yfir að eitthvað myndi koma fyrir hann í vagninum að ég átti erfitt með að hvílast. Ég hafði lesið alls konar hryllingssögur um mýs og rottur sem nörtuðu í andlit ungabarna, svo ég þurfti að taka á öllu mínu til að hrista þessa vitleysu af mér. Við bjuggum á þriðju hæð í fjölbýlishúsi og áttum ekki von á að mýs, rottur eða kettir létu sjá sig á svölunum.
Við vorum „svala“ fólkið. Við vorum þau úthrópuðu sem létu barnið sofa úti á svölunum, með mónitor. Mér skildist að ástæða þess að íslensk börn væru upphaflega látin sofa úti í vögnum væri plássleysi í húsum. En ég veit ekkert um slíkt. Kannski er hreint súrefni það sem þau þurfa. Ég gerði bara það sem Rúna vildi að ég gerði. Trausti svaf úti á svölum eins og systir hennar, móðir og amma höfðu gert. Trausti svaf að sjálfsögðu í vagni með mónitor sem ég hlustaði stíft á. Svo stíft að stundum gat ég ekki slakað á og hljóp út á svalir til að athuga hvort barnið andaði ekki. Hann andaði í öllum þessum tilvikum.
Matartímarnir voru skrítnir. Trausti var byrjaður að borða ólystugt mauk sem hann slefaði óspart niður á sig. Ég mundi eftir gömlum tölvuleik á meðan ég greip slefið með skeiðinni og stakk aftur upp í hann. Í tölvuleiknum var þetta ekkert ólíkt. Maður greip fólk sem kastaði sér úr brennandi húsi og kom því í sjúkrabíl. Þetta var gamall Nintendo leikur sem ég hafði gaman af sem barn. Það að grípa slefið úr Trausta og koma því ofan í hann var ekkert skemmtilegt.
Pissubleyjurnar voru auðveldar. Það var annað með kúkinn. Trausti átti það stundum til að spræna á meðan maður var að taka til þarna að neðan. Þá varð ég að vera snöggur og setja klút eða bleyjuna aftur fyrir. Mikið langaði mig oft að vera í vinnunni þá.
Útiveran var oftast ánægjuleg. Ég gat slakað á þegar ég rölti um hverfið með hann í vagninum. Á góðviðrisdögum fórum við á róluvöll í nágrenninu og ég leyfði Trausta að leika sér í sandkassanum. Hann mokaði svo sem ekkert, sat bara þarna og skoðaði á sér fingurna eftir að hafa snert sandinn. Svo stakk hann fingrunum upp í sig. Steinar voru hans uppáhald og ég þurfti að hafa mikið fyrir því að hann æti ekki upp alla steina sem hann sá.
„Hvað heitir hann?“ spurði kvenmannsrödd á bak við mig þegar ég var að gera upptækan grjótgarð í lúkunum á honum.
„Trausti.“ sagði ég án þess að líta við, en reyndi að hljóma gleðilega til að vera ekki of ókurteis.
„Trausti er fallegt nafn,“ sagði konan.
Röddin var blíð. Hjal í barni hljómaði fyrir aftan mig.
„Takk.“ Ég leit við um leið og ég náði grjótinu af Trausta sem starði í forundran á tóman lófann.
Ég tók eftir því að konan sem var sest á bekkinn fyrir aftan mig var með barnavagn sem hún ruggaði til og frá. Barnið í vagninum hjalaði í takt við ruggið.
„Hún eða hann?“ spurði ég og kinkaði kollinum að vagninum.
„Hún,“ svaraði freknótta konan með rauða hárið. Blá augu hennar tindruðu í sólargeislunum sem léku við augasteina hennar.
Ég brosti og kinkaði kolli.
„Hvað er hún gömul?“
„Hún er að verða tíu mánaða. Getur setið næstum því óstudd. Ég er alltaf að passa að hún detti ekki á hina hliðina eða þessa.“
Rauðhærða konan, með smáa nefið og varir sem mig langaði strax að kyssa, brosti. Ég varð hissa hversu hratt hugsunin um samlíf með þessari konu kom í hugann og leit undan.
„Hún er ekki byrjuð að sitja ennþá. Liggur bara og vælir og hjalar til skiptis.“
„Einmitt. Þau eru þægileg á meðan þau sofa,“ sagði ég og þótti ég ágætur að henda þessari klisju inn í samtalið. Mig langaði að líta aftur á þessa konu, en fékk mig ekki til þess. Það var eins og ég væri fastur í handbremsu, en ég vissi að ég þurfti að líta á hana aftur. Skyndilega langaði mig að taka Trausta og fara.
„Nei, best þegar þau vaka. Ég get horft endalaust á Ylfu mína.“ Hún hló.
Ég heyrði hana eiga eitthvað við barnið sem hjalaði í kjölfarið. Ég leit við.
„Já, ætli þau hafi ekki sofið nóg blessuð.“ Ég stóð upp og rétti úr mér. Passaði mig samt á að hafa Trausta í sjónmáli svo hann æti ekki sandkassann. Ég rétti fram höndina. „Friðrik.“
„Sæll. Jóhanna.“ Hún rétti fram höndina.
Hönd hennar var mjúk viðkomu og nú fann ég einnig lyktina af henni. Ég var ekki viss um hvort þetta væri lykt af þvottaefni, mýkingarefni eða ilmvatni. Það skipti svo sem engu máli. Ilmurinn snerti einhverjar taugar sem hafði þau áhrif að ég gaf þessari konu meiri gaum. Ég horfði á hvernig rautt axlarsítt hár hennar bærðist í vindinum, hvernig djúpblá augu hennar urðu flóttaleg þegar ég leit í þau og hvernig tunga hennar læddist upp á rauðar varirnar til að bleyta þær.
Ég freistaðist til þess að setjast hjá henni og við töluðum um stund, eða eins lengi og börnin leyfðu okkur. Hún bjó í nágrenni við mig og ég tjáði henni að ég væri hissa á að hafa ekki séð hana í hverfinu, hvað þá í kjörbúðinni. Við spjölluðum og hlógum þangað til að Trausti datt á hliðina með munninn fullan af sandi og Ylfa byrjaði að grenja af svengd.
Ég reyndi að ná mestu af sandinum út úr drengnum á meðan ég kvaddi Jóhönnu og Ylfu. Ég átti svo sem ekki von á að hitta þær aftur.
Dagarnir liðu allir eins. Gefa að borða, sofa, kúka, pissa, leika. Það var leika sem mig hlakkaði mest til. Ég hafði hitt Jóhönnu aftur á róluvellinum og samverustundir okkar voru skemmtilegar. Þær gerðu þessa leiðinlegu rútínu bærilega.
Ég var búinn að hitta Jóhönnu á sama stað þrívegis áður en ég sagði Rúnu frá því.
„Já, hversu gamalt er barnið?“ spurði hún.
Ég hafði aldrei spurt um það þannig að ég vissi það ekki. „Það er einhverra mánaða. Fjögurra kannski.“
„Spurðirðu ekki?“ Hún leit hvumsa á mig.
„Æi, þú veist að ég hef engan áhuga á svona.“
„Karlmenn.“ Hún fór inn í eldhús.
Umræðuefninu var lokið í bili.
***
Dögunum lauk núna alltaf með endurfundum með Ylfu og Jóhönnu. Við sátum og spjölluðum á meðan Ylfa hjalaði og Trausti át sand. Ég reyndi þó eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að barnið færi sér að voða með því að moka með honum á meðan ég spjallaði við Jóhönnu. Mér þótti það skrítið hversu meira aðlaðandi hún varð eftir því sem við hittumst oftar. Lyktin af henni yfirgnæfði allar mínar skynjanir. Augu hennar fönguðu mig og drekktu mér í sál hennar. Á tímapunkti fannst mér ég vera fangi. Hún var ekki bara skemmtilegur félagskapur, heldur reis mér hold í hvert skipti sem við áttum fundi. Ég stóð mig að því að hugsa um hana eftir að fundum okkar lauk og Rúna var komin heim. Í þau fáu skipti sem ég og Rúna gerðum tilraun til kynmaka, hugsaði ég um Jóhönnu.
Ég velti fyrir mér hvaða ilmvatn hún notaði. Kannski myndi sama ilmvatn virka á Rúnu. Eða lyktin af fötunum hennar. Hún notaði eitthvert þvottaefni sem ég vissi ekki hvaðan kom, en ég hefði getað þefað af henni allan daginn. Stundum stóð ég mig að því að anda henni djúpt að mér þegar hún sá ekki til. Þær stundir var ég að ærast úr losta og langaði til að grípa hana í faðm mér og kyssa hana.
Ég átti hins vegar skýringar á þessu líka í lok dags. Kynlíf okkar hjóna var ekki upp á marga fiska eftir að Trausti kom til skjalanna og því var ég aðframkominn af greddu. Ég hálfpartinn skammaðist mín fyrir þetta. Rúna stóð sína plikt eins og ég hafði gert. Ég tók þá ákvörðun að fara ekki aftur á þennan róluvöll á góðviðrisdögum.
Í stað þess að leyfa Trausta að snæða sand fórum við í langan göngutúr um hverfið. Mér leið strax betur og það dró úr samviskubitinu. Þegar heim var komið sofnuðum við saman í rúminu á meðan við biðum eftir mömmu.
Svona gekk þetta næstu vikur og það virkaði vel, alveg þar til haustveðrið kom. Löngu göngutúrarnir voru ekki svo notalegir lengur. Ég ákvað þá að fara með Trausta í stutta ferð á rólóinn. Hann var byrjaður að geta rólað þannig að ég gat ýtt honum í nokkur skipti til að sleppa frá sandátinu.
Rólóinn var mannlaus fyrir utan okkur feðga. Ég lyfti Trausta upp og setti hann í barnaróluna.
„Svona kall, nú bara ferð þú í geimskipið og svo flýgurðu beint út í geim. Ok?“ Ég ýtti honum af stað.
„Ætlarðu bara að skjóta honum upp í geiminn?“
Rödd hennar smaug inn í mig og kreisti á mér magann. Ég snéri mér við og leit á konuna sem ég hafði verið að forðast. Ég fékk högg í bakið og missti jafnvægið og datt kylliflatur við fætur hennar þar sem hún sat á bekknum. Trausti og rólan sem hann var í hafði rekist í mig á bakaleiðinni. Trausti grét og Jóhanna rauk á fætur.
„Er allt í lagi með þig?“
Ég var með sand á vörunum og náði vart andanum en veifaði hendi eins og að allt væri í himnalagi. Ég snéri með við og horfði á eftir rólunni með Trausta vingsa til hliðanna.
Jóhanna var á undan mér að stöðva róluna og taka Trausta upp. Hún faðmaði hann að sér á meðan hún horfði á mig full meðaumkunar.
„Svona, svona. Maður á ekki að róla á pabba sinn.“
Ég brosti.
Rigningardropi gerði vart við sig á kinn minni þegar ég stóð upp og dustaði af mér mesta sandinn. Kaldur gustur lék um róluvöllinn og fleiri dropar létu á sér kræla.
„Ætli það sé ekki best að drífa sig,“ sagði ég út í loftið og gekk að henni með útréttar hendur til að gefa til kynna að ég skyldi taka Trausta.
„Leiðinlegt þetta veður. Ég var að vona að við gætum spjallað. Ég hef ekki séð þig hérna lengi.“
„Já þetta er leiðinlegt.“ Ég vissi ekki hvernig ég átti að svara restinni.
„Þið feðgar viljið kannski kíkja í kaffi?“ Hún brosti. „Eða þú færð kaffi, hann fær mjólk.“
„Já, þú meinar.“ Ég tók Trausta í fangið. Regnið var nú farið að gera verulega vart við sig. „Kannski að það sé bara sniðugt.“
„Eltið mig.“ Jóhanna hélt af stað með kerruna á undan sér.
Gangan var ekki löng. Hún átti heima rétt fyrir utan rólóinn.
„Geriði svo vel.“ Hún opnaði dyrnar.
Ég klæddi mig úr skónum og tók Trausta úr pollagallanum. „Kannski verða þau leikfélagar?“ sagði ég þegar ég horfði á hana taka Ylfu upp úr vagninum.
„Kannski.“ Hún strauk yfir höfuðið á henni. „Viltu kaffi?“
„Kaffi væri fínt.“ Það var smá hrollur í mér eftir rólóinn og heitur drykkur var kærkominn. „Hvað er maðurinn þinn að vinna?“
„Ég á engan mann,“ svaraði hún og snéri baki í mig á meðan hún hellti upp á kaffið.
„Ó, ég hélt að…“
„Hann fór áður en Ylfa fæddist,“ sagði hún án þess að snúa sér við.
„Það var leiðinlegt,“ sagði ég án þess að vita hvað annað ég ætti að segja.
„Nei, nei. Hann var asni. Fínt að hann fór.“ Hún snéri sér við og brosti.
Mér fannst hún fallegri en nokkru sinni fyrr. Mér fannst hún glitra eins og rúbín gegnt svarbláum himinn. Mér fannst hún vera fallegri en Rúna og velti því fyrir mér hvort ég elskaði þessa konu. Hvernig getur maður samt elskað manneskju sem maður þekkir ekkert?
„Skrítið að einhver fari frá svona…“ ég leit undan, „fallegri konu.“ Ég leit á Trausta og sá að hann var orðinn þreyttur þar sem hann sat með stelpuleikföng í kringum sig. „Kannski ég bara fái einn kaffisopa og fari svo.“
„Kaffið er alveg að vera tilbúið,“ sagði hún og settist niður á móti mér.
„Mér sýnist Trausti vera alveg að sofna, ég ætti kannski að…“
„Þú getur lagt hann hérna í sófann. Hann dettur ekki neitt.“ Hún benti mér á sófa sem ég sá að var ómögulegt fyrir Trausta að velta sér út úr. „Ég set oft Ylfu þarna þegar ég þarf að bregða mér frá,“ hélt hún áfram.
„Ok.“ Ég tók Trausta upp og setti hann í sófann. Í sófanum var grængult prjónateppi sem ég greip og setti yfir hann. Snuðið saug hann að mikilli áfergju. Ég sá fram á smá hvíld frá barnapössun.
„Ég þyrfti að fá mér svona sófa,“ sagði ég lágum hljóðum á leiðinni inn í eldhús.
„Ylfa er líka sofnuð.“ Jóhanna lokaði svaladyrunum.
Við vorum ein.
Við stóðum fyrir framan hvort annað í stundarkorn eins og illa gerðir hlutir, þar til hún tók af skarið og kyssti mig. Hún laumaði tungunni hægt og rólega upp í munninn á mér. Ég efaðist um að Rúna hefði nokkurn tímann rekið tunguna svo langt upp í mig eins og Jóhanna gerði nú. Ég tók á móti og sleikti á henni tunguna. Ég hafði oft fengið standpínu, en í þetta skiptið var hún svo mögnuð að mér sortnaði fyrir augum. Ég var algjörlega á hennar valdi.
Þegar hún sleit kossinum, horfði hún á mig og brosti áður en hún lét sig falla niður og ég fann hvernig beltissylgjan losnaði, rennilásinn opnaðist og limurinn á mér varð umlukinn hita.
Ástarleiki eins og þá sem við áttum inni í svefnherbergi Jóhönnu hafði ég aldrei þorað að bera upp við Rúnu. Þegar við vorum búin að fá það einu sinni gerðum við það aftur af því að börnin voru ekki vöknuð.
Þegar ég fór heim ásótti sektin mig. Ég var svo sakbitinn að ég gat ekki notið minninganna um ástarleikinn við Jóhönnu. Ég hugsaði um allt sem ég og Rúna höfðu gengið í gegnum og gert saman. Ég vildi ekki missa það. Þurfti ég framhjáhald til að komast að því?
Viðmót Rúnu breyttist smátt og smátt og fyrr en varði varð hún konan sem ég hafði gifst.
Ég forðaðist róluvöllinn eins og heitan eldinn. Ég þorði ekki nálægt heimkynnum Jóhönnu og Ylfu og vildi sem minnst um þær vita. Fyrir mér táknuðu þær heimsendi eða upphaf af nýju lífi sem ég vissi ekki hvort væri það sem ég vildi.
Í einum helgargöngutúrnum var kveðju kastað á mig. Röddina þekkti ég. Þetta var Jóhanna.
„Sæll Friðrik,“ sagði hún.
Ég leit á hana. Það voru margir mánuðir síðan ég hafði síðast hitt hana.
„Sæl.“
„Hver er þetta?“ hvíslaði Rúna.
„Æi, þetta er konan sem ég sagði þér frá.“
Þegar ég virti Jóhönnu betur fyrir mér sá ég að hún var ólétt.
—
Róbert Marvin hóf að skrifa árið 1997 þegar hann frétti af smásagnasamkeppni á vegum Ríkisútvarpsins. Hann sendi inn söguna Sporin, sem er hryllingssaga um útigangsmann í New York, og varð hún ein af þeim sögum sem bar sigur úr bítum. Hún var lesin upp í Ríkisútvarpinu af Hjalta Rögnvaldssyni leikara.
Hann vann Gaddakylfuna fyrir söguna „Góða nótt” sem er um unga konu sem vinnur á kaffihúsi. Hún getur ekki sofið á næturnar þar sem einhver situr um hana.
Fyrsta bók hans „Konur húsvarðarins”, sem gefin er út af Óðinsauga, kom út í júní 2015. Fyrsta barnabók hans, „Litakassinn” kom út í nóvember 2016.
Önnur glæpasaga hans „Umsátur” sem var gefin út af Draumsýn kom út í september 2017.
Róbert Marvin vinnur nú að sinni fjórðu bók.