„Ágúst Ólafur Ágústsson sæti áminningu fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld Beck með eftirfarandi hætti:
Með því að reyna endurtekið og í óþökk þolanda að kyssa hana á starfsstöð Kjarnans 20. júní 2018 og varðar það við reglu 3.1.3.
Með því að niðurlægja og auðmýkja þolanda meðal annars með niðurlægjandi og móðgandi athugasemdum um útlit hennar og vitsmuni þegar tilraunir hans báru ekki árangur og varðar það við reglu 3.1.2.
Þá telur nefndin að Ágúst Ólafur hafi með framkomu sinni gegn þolanda sniðgengið stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni og bakað félögum sínum í Samfylkingunni tjón með því að virða ekki 1., 4. og 11. gr. siðareglna flokksins.
Ákvörðunin styðst við verklagsreglur 6.1.3 um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni.“

Þannig hljómar niðurstaða Siðanefndar Samfylkingarinnar, eða trúnaðarnefndar flokksins, sem tók til umfjöllunar kæru blaðakonunnar Báru Beck gegn þingmanni flokksins, Ágústi Ólafi Ágústssyni.
Guðrún Ögmundsdóttir, fv. þingmaður og borgarfulltrúi, Samfylkingarinnar er formaður trúnaðarnefndarinnar. Formaður flokksins, Logi Einarsson, fékk upplýsingar um atvikið í september sl. en af hálfu flokksins var ekkert látið uppi um það opinberlega, fyrr en Ágúst Ólafur steig sjálfur fram á föstudag og upplýsti um það.

Fréttablaðið, bendir á vef sínum í dag, á að Logi hafi vitað strax á föstudag að yfirlýsing Ágústs Ólafs væri ekki í samræmi við úrskurð trúnaðarnefndarinnar eða upplifun Báru.
„Það er rétt að hún [Bára] hafði samband við mig og ég upplýsti hana um þau úrræði sem við höfum, og hún fór eftir þeim. Í kjölfar úrskurðarins kallaði Ágúst okkur fyrir og þá vorum við öll upplýst um þetta. Síðan þá hef ég auðvitað brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá en hef engin afskipti að öðru leyti,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.
„Við erum bara að melta þetta núna. Yfirlýsingin var einhliða frá honum og við sáum hana ekki fyrr en hún birtist.“
En í ljósi þess að þú vissir af rangfærslunum – gerðirðu athugasemdir við færslu Ágústar Ólafs?
„Ég sá yfirlýsinguna ekki fyrr en eftir að hún birtist.“
Gerðirðu athugasemdir eftir að hún birtist?
„Aftur – ég ætla ekki að tjá mig um það sem fór okkar á milli,“ segir Logi í samtali við vef Fréttablaðsins.