
Spáð er vonsku veðri á öllu landinu á þriðjudag og miðvikudag með mjög mikilli snjókomu á norðanverðu landinu. Búast má við að snjóflóðahætta geti orðið einhver á Austfjörðum og í kringum höfuðborgarsvæðið, töluverð á Vestfjörðum og mikil á Tröllaskaga á meðan veðrið gengur yfir, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Spáin er gerð fyrir stór landsvæði og þarf ekki endilega að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð. Hún er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi á landinu þar sem spáð er aftakaveðri. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.