Spánn og Pólland: Óánægja og umræða um úrsögn úr ESB

Katalónski aðskilnaðarsinninn Oriol Junqueras var dæmdur í 13 ára fangelsi á Spáni. Mynd/Wikipedia

Vaxandi þrýstingur er á hægri flokka á Spáni um að yfirgefa Evrópusambandið (ESB), í framhaldi af úrskurði Evrópudómstólsins. Frá þessu segir breska blaðið Express í dag.

Spánn fetar þar með í fótspor Póllands, en frá báðum aðildarríkjunum bárust raddir um útgöngu úr sambandinu á innan við viku, vegna óánægju með að stjórnkerfin þurfi að lúta ákvörðunum sambandsins.

Vox er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Spánar á spænska þinginu, og nýtur vaxandi stuðnings. Flokkurinn er undir miklum þrýstingi grasrótarinnar um að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu (SPAXIT). Formaður Vox, Santiago Abascal, hraunaði yfir ESB vegna niðurstöðu Evrópudómstólsins, sem hafði tekið fram fyrir hendurnar á spænskum dómstólum, með þeim orðum að “Spánn og fullveldið hefðu verið niðurlægð“.

Seta á Evrópuþinginu veiti dæmdum manni friðhelgi

Evrópudómstóllinn hafði tekið fram fyrir hendurnar á spænskum dómstólum, og úrskurðaði að einn af leiðtogum katalónsku aðskilnaðarhreyfingarinnar, Oriol Junqueras, skyldi njóta þingmannafriðhelgi. Hann stóð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni, og var dæmdur í 13 ára fangelsi af spænskum dómstólum. Junqueras var gerður að Evrópuþingmanni í maí sl., en er ekki eiðsvarinn gagnvart spænsku stjórnarskránni eins og hefðbundnir þingmenn. Spánn mun nú þurfa að leysa hann úr haldi.

Reiði blossaði upp á Spáni vegna málsins, og Abascal tísti: „Spánn (eins og önnur lönd) ættu ekki að þurfa að beygja sig undir ákvarðanir þeirra sem ráðast að fullveldi og öryggi okkar.“ Flokkurinn notaði m.a. myllumerkið #EspañaLoPrimero, eða Spán fyrst.

Fyrir örfáum dögum gaf hæstiréttur í Póllandi út að landið gæti orðið að yfirgefa ESB, til að umbætur ríkisstjórnarinnar í réttarkerfi landsins nái fram að ganga, sbr. frétt Breska ríkisútvarpsins um málið.