
Sparisjóðirnir munu ekki geta þjónustað viðskiptavini sína með erlendar millifærslur á næstunni.
Einn viðskiptavinur bankans komst að þessu er hann fékk skilaboð þess efnis frá bankanum, og fékkst það staðfest í tilkynningu á vefsíðu Sparisjóðsins.
Ekki verður hægt að millifæra eða greiða til erlendra aðila eftir 6. desember 2019 og ekki verður hægt að móttaka greiðslur eða millifærslur frá erlendum aðilum eftir 13. desember 2019. Sama gildi um millifærslur á erlendum gjaldmiðlum á milli banka innanlands. Bankinn vonast til að ástandið verði aðeins tímabundið.
Áfram verði þó hægt að kaupa erlendan gjaldeyri, stofna gjaldeyrisreikninga og framkvæma innlendar og erlendar greiðslur með greiðslukortum.
Ástæðan sem gefin er upp er að samstarfsaðili sparisjóðanna geti ekki lengur veitt þessa þjónustu vegna krafna frá erlendum samstarfsaðila hans. Íslenskir bankar hafi jafnframt ekki treyst sér til að veita sparisjóðnum þessa þjónustu vegna krafna sinna samstarfsaðila erlendis.