Stefán Eiríksson verður nýr útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins.

Stefán Eiríksson verður nýr útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins (RÚV), en frá þessu er greint á vef RÚV.

Hann tekur til starfa 1. mars næstkomandi. Stjórn RÚV tilkynnti þetta í dag. Ákvörun um að ráða Stefán var tekin samhljóða á fundi stjórnarinnar í gærkvöldi, en alls sóttu 41 um stöðuna.

Stefán Eiríksson hefur verið borgarritari síðan í desember 2016. Áður var hann lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Stefán er menntaður lögfræðingur með próf frá Háskóla Íslands. Hann tekur við af Magnúsi Geir Þórðarsyni sem var skipaður þjóðleikhússtjóri 1. nóvember.

Útvarpsstjóri er ráðinn af stjórn til fimm ára í senn. Hann er æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar og hefur daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með höndum. Hann skal hafa að leiðarljósi hlutverk og skyldur þess eins og kveðið er á í lögum. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins þ.m.t. framkvæmdastjóra.