„Það þarf að tryggja að lífeyrissjóðir og sjóðir hins opinbera fjárfesti í grænum skuldabréfum.“
Þetta voru orð forsætisráðherra Íslands, Katrínar Jakobsdóttur, á Norðurlandaráðsþingi í lok síðasta mánaðar, skv. frétt Kjarnans um málið – og greina má óminn af þeim í Norskum stjórnmálum þessa dagana.
Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu í Noregi, á að hafa sagt í viðtali við E24 í síðustu viku að Norski olíusjóðurinn ætti að beina sjónum sínum að fjárfestingum í endurnýjanlegum orkuiðnaði. Vinstri flokkar og Græningjar í Noregi heimta í framhaldinu að Norski olíusjóðurinn verði notaður í að fjárfesta í svokölluðum „grænum fjárfestingum“ – m.a. í þeim pólitíska tilgangi að reyna að ná markmiðum sem sett hafa verið í samræmi við Parísarsáttmálann í loftslagsmálum, en frá því greinir tv2.no í dag.
Arðsemisvon og lágmarksáhætta verður að ganga fyrir í fjárfestingum sjóða
Forsætisráðherrann og formaður Hægriflokksins, Erna Solberg, á að hafa svarað því til að sjóðurinn sé að skoða fjárfestingar í slíkum iðnaði – ekki af pólitískum ástæðum – heldur vegna arðsemisvonar.
Í þessum umræðum má greina aðalástæðuna fyrir því, hversvegna hinu opinbera er ekki treystandi til að stjórna fjárfestingasjóðum í eigu almennings. Stjórnmálamenn eiga það til að gleyma að eina hlutverk sjóðsstjórnar er að hámarka arðsemi og lágmarka áhættu þeirra sem hún starfar í umboði fyrir – en ekki að hlaupa á eftir tískubólum og sýndarmennsku stjórnmálanna á hverju kjörtímabili. Hending ein virðist ráða því hvort stjórnmálamenn taka þetta til greina – ef við skoðum orð Katrínar og Støre, samanborið við orð Solberg, um málið.
Í fyrsta lagi eru til sorgleg dæmi, í sögunni og samtímanum, um það þegar pólitískur metnaður og hugmyndafræði tekur framfyrir grundvallarviðmið í fjárfestingastefnu sjóða – um hámörkun arðsemi og lágmörkun áhættu. Barack Obama, f.v. Bandaríkjaforseti keyrði á hugmyndafræði um „grænar fjárfestingar“ sem endaði með gjaldþrotum og endalausum málaferlum vegna fjármálamisferlis og svika. Þýskaland á nú í erfiðleikum vegna stefnu stjórnvalda sl. 20 ár í umhverfismálum sem keyrð hefur verið inn í fjárfestingar í samræmi við Orkuskiptin (þ. Die Energiewende).
Iðnaður þarf að vera eftirspurnardrifinn til að þrífast á markaði
Í öðru lagi verða fyrirtæki í grænum iðnaði að standa sig í eðlilegu samkeppnisumhverfi eins og önnur fyrirtæki á markaði til að þrífast – af því að á einhverjum tímapunkti þverr annarra manna fé – og fyrirgreiðslur og styrkir hins opinbera vegna stefnu stjórnvalda um fjárfestingar klárast. Iðnaður sem haltrar um á slíkum hækjum, til að þjóna pólitískum markmiðum og skapa sýndarveruleika fyrirmyndarríkis stjórnmálanna, á sér litla von eftir það.
Stjórnmálamenn geta ekki, til lengri tíma litið, staðist þá freistingu að setja sinn eigin pólitíska metnað og þær draumsýnir sem þeir halda að muni raungerast, framar hagsmunum lífeyrisþega og almennings. Það hefur margsýnt sig. Forsætisráðherra Íslands virðist, miðað við orð sín, vera ein af þessum stjórnmálamönnum, og fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, virðist kjósa að líta framhjá því að Þjóðarsjóður yrði alveg jafn berskjaldaður fyrir þesskonar afglöpum í framtíðinni.
Á meðan bíða sjóðfélagar lífeyrissjóða og skattgreiðendur á milli vonar og ótta um hið ókomna – og kjósendur munu hugsa sinn gang fyrir næstu Alþingiskosningar.