Stjórnmálamennirnir sem sátu á Klaustur voru átta en ekki sex

Líf Magneudóttir og Gunnlaugur Bragi Björnsson.

Stjórnmálamennirnir sem áttu umræður yfir glasi á veitingastaðnum Klaustur á dögunum, svo sem frægt er orðið, voru fleiri en hingað til hefur komið fram.  

Þessu hefur verið haldið fram á samfélagsmiðlum í dag og Viljinn hefur nú fengið staðfest að svo sé.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, og Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, sátu drykklanga stund með þremur þingmönnum Miðflokksins, þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni og Gunnari Braga Sveinssyni úti í horni á veitingastaðnum þegar þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason höfðu yfirgefið samkvæmið.

Upptökur þær af samtali stjórnmálamannanna, sem senda voru þremur fjölmiðlum í síðustu viku, ná ekkert til samræðnanna þegar þau Líf og Gunnlaugur voru sest við borðið. Að minnsta kosti hefur ekkert birst af þeim í þeim fjölmiðlum; DV, Stundinni og Kvennablaðinu sem fengu þær sendar frá heimildarmanni sem kallaði sig Marvin.

Bára Halldórsdóttir, sem hefur stigið fram og upplýst að hún sé Marvin og hafi tekið umræður stjórnmálamannanna upp á símann sinn, hefur í viðtölum á föstudag og um helgina ekki minnst á að fleiri stjórnmálamenn hafi setið við borðið en hingað til hefur komið fram.

Bára upplýsti að hún hefði tekið samtöl stjórnmálamannanna upp á símann sinn þar til þeir yfirgáfu staðinn, þar sem henni hefði ofboðið umræðan sem þeir viðhöfðu og upptökurnar væru ríflega þrír klukkutímar.

Hún sagði í Víglínunni í gær, að það væri ekki rétt, að þingmenn Flokks fólksins, hefðu yfirgefið samkvæmið á undan öðrum. Þeir hafi setið allan tímann. Það virðist ekki koma heim og saman við þær upplýsingar, að þeir og Anna Kolbrún hafi verið farin þegar þau Líf og Gunnlaugur bættust í hópinn og sátu með þingmönnunum nokkra stund.

Hörð viðbrögð tvímenninganna

Uppfært kl. 20:00. Þau Líf og Gunnlaugur hafa bæði brugðist við frétt Viljans á samfélagsmiðlum og er augljóst að þau kunna honum litlar þakkir fyrir að hafa upplýst um veru þeirra á Klaustur umrætt kvöld.

Viljinn stendur hins vegar vitaskuld við fréttina, enda snerist hún um þá staðreynd að þau tvö hefðu líka komið að umræðum á umræddum veitingastað, án þess að það hefði komið fram opinberlega áður. Jafnframt liggur fyrir, að ekkert hefur birst af þeim umræðum sem áttu sér stað meðan þau tvö sátu með þingmönnum Miðflokksins við borðið.

Hefur Viljinn heimildir fyrir því, að borgarmálin hafi meðal annars borið á góma í þeim samræðum. Verður fróðlegt að sjá hvort upptökur af þessum samtölum rati í fjölmiðla, eins og annað sem rætt var þetta kvöld.