Kirkjunnar menn (og konur) í Bretlandi klóra sér nú í hausnum yfir umræðu sem skotið hefur upp eins og eldgos um hvers kyns Guð er. Erkibiskupinn af Kantaraborg hefur skorist í leikinn og staðfest að Guð sé í reynd hvorki „Hann“ né „Hún“.
Ýmsir kvenprestar höfðu farið þess á leit við erkibiskupinn Justin Welby að kirkjan hætti í opinberum trúartextum sínum að karlgera Guð almáttugan með jafn afgerandi hætti og nú er.
Erkibiskupinn hefur nú staðfest að Guð sé hvorki karlkyns eða kvenkyns og ekki sé nauðsynlegt að tala um Guð sem hann í textum.
Diarmaid MacCulloch, prófessor í trúarbragðasögu, tekur undir með biskupnum og segir að sögulega sé karlkynstengingin á Guði hluti af feðraveldinu og eigi sér rætur í kristnum samfélögum Grikkja og Rómverja.
„Guð er ekki faðir á sama hátt og manneskjan er faðir,“ segir erkibiskupinn af Kantaraborg. „Guð er hvorki karl né koma. Það er ekki hægt að skilgreina Guð með slíkum hætti. Guð er.“
Kvennakirkjan talar um hana Guð
„Kvennaguðfræði er guðfræði sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra sjálfra og allri veröldinni fyrr og síðar,“ skrifar sr. Auður Eir á heimasíðu Kvennakirkjunnar (www.kirkjan.is/kvennakirkjan).
Á öðrum stað á heimasíðunni skrifar Auður:
„Orðalagið í textum Biblíunnar er útilokunarorðalag. Það útilokar konur úr textanum. Það er svo rótgróið að tala í karlkyni í kirkjunni sem annars staðar að fólk rekur oft í rogastans þegar talað er um nauðsyn þess að málfræði og orðaval vísi líka til kvenna. Fólk spyr hvort við sem notum mál beggja kynja skiljum ekki að karlkynsmyndirnar eiga líka við konur. Það rökstyður spurningu sína til dæmis með því að orðið bræður þýði bæði bræður og systur.
Við höfum hins vegar séð að þessi rök gilda sjaldnast þegar kvenkynsmyndir eru notaðar í stað karlkynsmynda. Þeim sem finnst orðið bræður eiga við konur, finnst þó ekki á sama hátt að orðið systur eigi við um karla. Þeim finnst móðgun að tala til karla í kvenkyni. Hvers vegna fannst þeim þá aldrei móðgun að tala um konur í karlkyni?“
„Kvennakirkjan er hluti af þjóðkirkjunni og við fáum inni í hinum ýmsu kirkjum,“ segir Auður Eir. Við sköpum hverja messu í samræmi við guðfræðina og metum aðstæður í hvert sinn. Helgihaldið hefur samt það sama markmið og allt kristið helgihald, að hittast hjá Guði og tala við hana og hlusta á hana.“
Bubbi ekki í neinum vafa
En sjálfur Bubbi Morthens er ekki í neinum vafa þegar kemur að þessum efnum. Hann samdi lagið og ljóðið Guð er kona, sem hljóðar svo:
Lítil stelpa sagði við mig, sjáðu skýin þarna
sjáðu þetta þykka hvíta, þar er hópur barna.
Þegar ég verð gömul og geng bogin svona
mun Guð á himnum taka mig og Guð hún er kona.
Gamall maður sagði við mig sumarið er búið.
Hjarta mitt er ansi þreytt orðið frekar lúið.
Að ég deyi í svefni vinur það ég vona.
Og vakni upp og sjái að Guð minn er kona.
Ástfangna konan sagði sjáðu hann er fagur
ég sef við brjóst hans uns að nýju rís dagur.
Ég óska mér að dagar okkar verði alltaf svona
og eitt máttu vita, ég veit að Guð er kona.