Stóráfall og áfellisdómur yfir stjórnarháttum í borginni

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Braggaskýrslan er stóráfall og áfellisdómur yfir stjórnunarhætti í borginni. Borgarstjóri og borgarritari bera þarna höfuðábyrgð. Þeir hafa enga heildarsýn og virðast vita bara lítið hvað er í gangi alla vega í þessu máli. Borgarritari er yfirmaður skrifstofustjóra skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins í samtali við Viljann.

Hún segir að einhver myndi taka pokann sinn, ef þetta gerðist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. „En hér er bara sagt æ æ ekki gott, af þessu verðum við að læra og svo er bara beðið eftir að fenni yfir þetta og vonast til að gerist sem hraðast.“

Í bókun, sem Flokkur fólksins lagði fram í borgarráði í gær, segir:

„Skýrsla  innri endurskoðunar um  Nauthólsveg 100 er svört og mikið áfall. Í henni er rakið hvernig hver þáttur á eftir öðrum stríddi gegn góðum stjórnsýsluháttum. Nefna má að verkefnin voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu.  Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar.

Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Fram kemur að innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar, skýrslu ráðsins var ekki fylgt eftir. Biðlund ráðsins var of mikil eftir því sem fram kemur. Eitt það alvarlegasta er að borgarráð fékk rangar upplýsingar. Flokkur fólksins myndi vilja fá álit frá aðila utan borgarkerfisins á broti á  innkaupareglum og umboðsþáttum. Fram kemur að misferlisáhætta er mikil en skortur er á sönnunum.

En liðið er liðið og ekki er efast um borgarmeirihlutinn mun draga af þessu lærdóm og breytingar gerðar í kjölfarið til að koma í veg fyrir að svona lagað endurtaki sig.

En er þar með verið að draga eitt stórt pennastrik yfir Nauthólsveg 100?  Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst enn mörgum spurningum ósvarað og þá kannski helst sú,  mun einhver ætla að axla á þessu ábyrgð?“