Stórir skákmenn flækjast að ósekju í málið

„Það er sitthvað skrautlegt við þetta mál þegar að er gáð,“ sagði Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og verjandi í „Skáksambandsmálinu“, í samtali við Viljann, en aðalmeðferð þess lauk fyrir helgi.

Sveinn Andri hafði m.a. þetta að segja á facebook-vegg sínum:

Eftir tveggja daga þrátefli lauk í gær aðalmeðferð í hinu sérkennilega „Skáksambandsmáli“ sem þó tengist Skáksambandinu ekki neitt. Málið kom upp þegar umtalsvert magn fíkniefna fannst í stórum taflmönnum á Spáni á leið til Íslands. Ákveðin pattstaða er komin upp í málinu þar sem ákærðu er gefið að sök að hafa flutt inn fíkniefni í „stórum skákmönnum“. Sækjandinn varð auðvitað alveg skák og mát þegar verjandinn tefldi fram þessum gambít.“

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.

Til útskýringar fyrir þá sem ekki kunna mannganginn, þá er skák borðspil, sem tveir leikmenn (skákmenn) spila með 32 taflmönnum á taflborði, sem skipt er í átta reiti að lengd og átta að breidd, eða samtals 64 reitir. Þeir sem tefla kallast skákmenn, en þeir sem ná tilteknum árangri í viðurkenndum skákmótum geta hlotið titlana FIDE-meistari (FM, fide master), alþjóðlegur meistari (IM, international master) og stórmeistari (GM, grand master).

Aðspurður kvaðst Sveinn Andri ekki telja að hið misheppnaða orðalag ákærunnar muni hafa áhrif á gang málsins, og gantaðist að lokum með að í málsgögnunum komi t.d. fram að einn sakborninga hafi verið handtekinn á vinnustað sínum, Hvíta riddaranum.