Stormur í vatnsglasi: Kemur fullveldi landsins ekkert við

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Umræðan um milliríkjasamþykkt Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk og innflytjendur er stormur í vatnsglasi að mati Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Samþykktin breyti engu um þann lagaramma sem sé í gildi á Íslandi og þá komi hún fullveldi landsins að engu leyti við.

Þetta sagði Áslaug í Reykjavík síðdegis í dag. Samþykktin (e. Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration) verður samþykkt af fulltrúa Íslands á fundi sem stendur yfir í Marrakech í Marokkó í dag og á morgun. Verður hann svo endanlega fullgiltur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum áður en árið er úti.

Eins og Viljinn skýrði frá á dögunum, mun Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, skrifa undir samkomulagið fyrir Íslands hönd, en gerðir eru ákveðnir fyrirvarar við samþykktina. Fjölmörg ríki hafa ákveðið að samþykkja samkomulagið ekki. Komin er upp stjórnarkreppa í Belgíu vegna deilna um samþykktina.

Áslaug Arna segir ljóst að samþykktin falli að íslenskum lagaramma og þeirri framkvæmd sem tíðkast hafi hér á landi hingað til.

„Hún haggar ekki fullveldisrétti til að ráða stefnu okkar varðandi málefni farenda eða um að stjórna okkkar málaflokki í samræmi við alþjóðalög,“ segir hún.

Hún segir að landsmenn geti sofið rótt, því þetta hafi í reynd engin áhrif á íslenska löggjöld, enda hafi hvert ríki sjálfdæmi yfir sinni stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.