Stormurinn slátrar: Hin vikulega aftaka á Facebook

Guðmundur Steingrímsson fv. alþingismaður.

„Eitt helsta einkenni á samtíma okkar eru hin ofsafengnu hópbrjálæðisköst sem tekin eru á samfélagsmiðlum undir eins og einhver gerir eitthvað sem á einhvern hátt getur talist vafasamt. Eitt hliðarspor og fólk er tekið af lífi innan klukkustundar. Í viku hverri sjáum við dæmi um þetta. Þetta er orðinn fastur liður. Einhver gerir eitthvað rangt og bingó: Game over fyrir hann. Twitter-stormurinn hlífir engum sem lendir í honum,“ skrifar Guðmundur Steingrímsson, fv. alþingismaður, í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í morgun.

Hann segir að þetta sé eins og fólki sé skotið upp í loft og gert að lenda einhvers staðar úti í buskanum, án orðspors, án atvinnu, ringlað og með hárið út í loftið. Komið aftur á byrjunarreit.

„Þetta er ekki réttlátt ástand. Það er engin sanngirni fólgin í því að fólk missi lífsviðurværi sitt, vini og orðspor út af einu hliðarspori. Ég held að ákveðið ójafnvægi sé ríkjandi í samfélaginu út af þessu. Hin vikulega aftaka á Facebook er ný af nálinni,“ skrifar Guðmundur.