Hundruð strætóskýla í borginni Utrecht í Hollandi hafa verið tyrfð með gróðri fyrir hunangsflugur, að því er fram kemur í breska miðlinum Independent.
Strætóskýlunum er ætlað að auka fjölbreytni plöntu- og skordýralífs, einkum randa- og hunangsflugna, en eru einnig hugsuð til að fanga svifryk og safna regnvatni.
Bæjarstarfsmenn á rafmagnsbílum annast umhirðu skýlanna, sem einnig eru búin orkusparandi LED ljósum og bambusbekkjum. Verkefnið er eitt af mörgum sem bærinn hefur ráðist í til að reyna að bæta loftgæði.
Til stendur að fjölga rafdrifnum strætisvögnum um 55 á árinu og stefna að „hreinum almenningssamgöngum“ árið 2028. Rafmagnið á vögnunum verði framleitt af hollenskum vindmyllum. Utrecht veitir íbúunum styrki til að tyrfa þök húsa sinna á sama hátt.