Stúlla á Akureyri var goðsögn í lifanda lífi

Ingi­björg Bjarna­dótt­ir, Stúlla, fædd­ist á Ak­ur­eyri 11. des­em­ber 1950. Hún lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans 4. nóv­em­ber 2018.

Stúlla, eins og Ingibjörg var alltaf kölluð, var einhver þekktasti spámiðill landsins og gríðarlega eftirsótt sem slík. Hún veitti fólki í viðskiptalífinu, stjórnmálum og afreksfólki í íþróttum ráðgjöf, sótti það heim á erlenda grundu þegar mikið lá við og átti einstakt samband við fjölda þjóðþekktra einstaklinga um áratugaskeið, sem sjá nú á eftir dýrmætri vinkonu og ráðgjafa.

Ingi­björg ólst upp í miðbæ Ak­ur­eyr­ar, nán­ar til­tekið í Brekku­götu 3. Þar sleit hún barns­skón­um. Hún bjó bæði í Reykjavík og Akureyri, en líka á Ítalíu þar sem hún hóf að aðstoða ein­stak­linga, íþrótta­fólk og fé­lög, sem hún sinnti frá árinu 1987 til dauðadags.

Ingi­björg hafði fasta vet­ur­setu á Kana­ríeyj­um hin seinni ár ásamt því að búa á Ak­ur­eyri.

Raggi Sót, söngvari Skriðjökla á Akureyri, segir að Stúlla hafi verið sjálfmenntaður sálfræðingur og „spákona í hæsta gæðaflokki. Þegar einstaklingar, fjölskyldur og jafnvel heilu íþróttahóparnir áttu í einhverskonar krísu, var hún oft fengin til að segja nokkur vel valin og uppbyggjandi orð, eða bara grípa í spilin til að flikka uppá andlega heilsu. Því verður ekki lýst í nokkrum línum hversu góða nærveru þessi glæsilega kona hafði, flestir sem hana þekktu vita það,“ segir hann.

Sævar Jónsson, knattspyrnukappi og verslunarmaður, segir í minningargrein í Morgunblaðinu í dag, að fjölmiðlar hafi oft óskað eftir viðtali við Stúllu. „En það þáði hún aldrei enda ekki í leit að nein­um frama fyr­ir sjálfa sig í þess­um mál­um frek­ar en öðrum, hún hafði frek­ar hljótt um sig þó að hún hefði verið áber­andi per­sóna. Þetta kann að hljóma mót­sagna­kennt en engu að síður staðreynd.“

Og Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, minnist líka Stúllu frænku sinnar í dag: „Ég fékk skila­boð frá Val­dísi heit­inni Gunn­ars­dótt­ur út­varps­konu um að Stúlla vildi hitta mig. Þetta voru eins og ein­hvers kon­ar boð frá drottn­ingu. Enda var það svo á þess­um tíma að ef þú varst fræg­ur þá þekkt­ir þú Stúllu.“

Ritstjórn Viljans vill að leiðarlokum færa Stúllu miklar þakkir fyrir einstök og góð kynni. Blessuð sé minning hennar.

Útför Ingibjargar Bjarnadóttur fer fram frá Ak­ur­eyr­ar­kirkju í dag, 16. nóv­em­ber 2018, klukk­an 13.30.