Ingibjörg Bjarnadóttir, Stúlla, fæddist á Akureyri 11. desember 1950. Hún lést á líknardeild Landspítalans 4. nóvember 2018.
Stúlla, eins og Ingibjörg var alltaf kölluð, var einhver þekktasti spámiðill landsins og gríðarlega eftirsótt sem slík. Hún veitti fólki í viðskiptalífinu, stjórnmálum og afreksfólki í íþróttum ráðgjöf, sótti það heim á erlenda grundu þegar mikið lá við og átti einstakt samband við fjölda þjóðþekktra einstaklinga um áratugaskeið, sem sjá nú á eftir dýrmætri vinkonu og ráðgjafa.
Ingibjörg ólst upp í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið í Brekkugötu 3. Þar sleit hún barnsskónum. Hún bjó bæði í Reykjavík og Akureyri, en líka á Ítalíu þar sem hún hóf að aðstoða einstaklinga, íþróttafólk og félög, sem hún sinnti frá árinu 1987 til dauðadags.
Ingibjörg hafði fasta vetursetu á Kanaríeyjum hin seinni ár ásamt því að búa á Akureyri.
Raggi Sót, söngvari Skriðjökla á Akureyri, segir að Stúlla hafi verið sjálfmenntaður sálfræðingur og „spákona í hæsta gæðaflokki. Þegar einstaklingar, fjölskyldur og jafnvel heilu íþróttahóparnir áttu í einhverskonar krísu, var hún oft fengin til að segja nokkur vel valin og uppbyggjandi orð, eða bara grípa í spilin til að flikka uppá andlega heilsu. Því verður ekki lýst í nokkrum línum hversu góða nærveru þessi glæsilega kona hafði, flestir sem hana þekktu vita það,“ segir hann.
Sævar Jónsson, knattspyrnukappi og verslunarmaður, segir í minningargrein í Morgunblaðinu í dag, að fjölmiðlar hafi oft óskað eftir viðtali við Stúllu. „En það þáði hún aldrei enda ekki í leit að neinum frama fyrir sjálfa sig í þessum málum frekar en öðrum, hún hafði frekar hljótt um sig þó að hún hefði verið áberandi persóna. Þetta kann að hljóma mótsagnakennt en engu að síður staðreynd.“
Og Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, minnist líka Stúllu frænku sinnar í dag: „Ég fékk skilaboð frá Valdísi heitinni Gunnarsdóttur útvarpskonu um að Stúlla vildi hitta mig. Þetta voru eins og einhvers konar boð frá drottningu. Enda var það svo á þessum tíma að ef þú varst frægur þá þekktir þú Stúllu.“
Ritstjórn Viljans vill að leiðarlokum færa Stúllu miklar þakkir fyrir einstök og góð kynni. Blessuð sé minning hennar.
Útför Ingibjargar Bjarnadóttur fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 16. nóvember 2018, klukkan 13.30.