Svartur fimmtudagur: Mestu hópuppsagnir á vellinum frá því herinn fór

237 starfsmönnum Airport Associates (APA) á Keflavíkurflugvelli, stærsta þjónustuaðila Wow air,  verður sagt upp nú fyrir mánaðarmótin. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi nú síðdegis, en uppsagnirnar tengjast erfiðleikum í rekstri Wow.

Víkurfréttir, sem greindu fyrst frá aðgerðunum, segja að þær séu gerðar til þess að unnt sé fyrir fyrirtækið að fara í endurskipulagningu vegna breyttra aðstæðna. Flestir starfsmannanna eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis en einnig í Verslunarmannafélagi Suðurnesja.

„Við hörmum að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða og vonumst til að geta afturkallað þessar uppsagnir svo fljótt sem kostur er, þegar flugáætlun skýrist,“ hafa Víkurfréttir eftir Sigþóri K. Skúlasyni, forstjóra Airport Associates.

„Þetta er grafalvarlegt mál. Við erum bara í sjokki. Þetta er stærsta hópuppsögn síðan Varnarliðið fór,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK.  „Það er óhægt að segja að þetta sé svartur fimmtudagur.  Okkur er verulega brugðið en við munum þjónusta þessa starfsmenn eftir fremsta megni,“ sagði Kristján.