„Svona molnar úr frelsinu smátt og smátt,“ hefst færsla hjá Ásgeiri Ingvarssyni, blaðamanni, inni á facebook-hópnum Frjálshyggjufélaginu. Tilefni færslunnar er frétt í Morgunblaðinu í dag, um „peningaleitarhund“ sem stjórnvöld hafa látið þjálfa fyrir Tollgæsluna í Reykjavík.
„Auðvitað er það gjörsamlega óþolandi að yfirvöld skuli núna ætla að sigta sérstaklega út þá sem hafa á sér eitthvert magn seðla. Það er enginn glæpur að hafa á sér seðlabúnt, og fólk á að geta lifað sínu daglega lífi án þess að vera stoppað og ómakað sérstaklega af opinberum starfsmönnum ef að hundur nemur lyktina af seðlum. Hvað þá að þurfa síðan að standa í heilmiklu stappi, ef seðlar koma í ljós, við það að sanna að peningarnir séu löglega fengnir, ella hætta á eignaupptöku.“
Enginn spyr hvað réttlæti leit að peningum á fólki
Ásgeir gagnrýnir Morgunblaðið og segir að ekkert komi fram í fréttinni, eða á mbl.is, um hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun að þjálfa peningaleitarhund. Hann veltir upp nokkrum spurningum, sem er ósvarað.
Hann spyr m.a. hvort peningaþvætti sé svo mikill vandi á Íslandi, að það réttlæti að siga þefhundi á almenna borgara. Einnig veltir hann því upp hvort að peningaþvætti sé endilega í formi reiðufjár – og hvort að verið sé að beina þessari aðgerð gagnvart fórnarlambslausum glæpum, sem ættu hvort sem er að vera refsilausir.
Aukaatriði að gæta að frelsi og réttindum borgaranna
„Er tjónið svo mikið að réttlætir kostnaðinn við þjálfun á hundi og skipulagða leit að reiðufé? Hafa sambærilegar aðgerðir erlendis gefið góða raun, eða aðallega valdið saklausum borgurum ama?“
Að lokum segir hann: „Auðvitað spurði enginn þessara spurninga hjá hinu opinbera. Þar er bara eftiráhugsun og aukaatriði að standa vörð um grundvallarréttindi og grundvallarfrelsi borgaranna.“
„[Það] væri nær að þjálfa hund sem þefað gæti uppi bruðl með almannafé. Það fyrsta sem hann myndi þá gera væri að benda á kollega sinn, peningaþefhundinn.“